Alegría

Alegría

Alegria in El Salvador

Þorpið Alegría er staðsett nánast ofan á toppi á gömlu eldfjalli og hefði því frábært útsýni til allra átta ef ekki væri vegna allra þessara skrambans, en þó yndislegu trjáa. Fólkið hér ræktar kaffi og blóm og þorpið þeirra er fallegt og gefur frá sér góðan anda. Það er eiginlega mjög merkilegt hvað þorp og borgir hafa ólíkan persónuleika, ekki ósvipað fólki, jafnvel þótt þau liggi nánast hlið við hlið .

Hér eru fáir bílar og götur þröngar en við gátum lagt Benza í nágrenni torgsins og stóru kirkjunnar sem er ómissandi við hvert torg. Það er erfitt að rúnta um á stórum bíl til þess að finna svefnstæði og okkur finnst þægilegra að rölta um, skoða og spyrja fólk. Gangan okkar leiddi okkur góðan spöl niður fjallið í þetta sinn og inni í sérlega fallegan garð við plantekru nokkra sem ræktar kaffi, blóm og túrhesta. Útsýnið hjá þeim var stórkostlegt því húsin voru staðsett á lítilli bjargbrún og óhindrað útsýni 180 gráður yfir hálft landið því við vorum í 1100 metra hæð. Eigendurnir höfðu byggt mjög fína kofa á bjargbrúninni með lítilli verönd fyrir framan hvern þeirra en gistingin í þeim kostaði frá 50-80 dollarar nóttin sem er verulega dýrt á Mið Amerískan mælikvarða, einkum vegna þess að innviðir kofanna voru mjög spartískir og enginn lúxus sjánlegur sem gat réttlætt þetta verð. Ekki langt frá á sömu bjargbrún var stór veitingarstaður sjálfsagt með besta útsýni El Salvadors og þótt víða væri leitað. Matseðilinn virtist hefðbundin en í dýrari kantinum. Sér kaffihús var við hliðina á veitingarstaðnum og við settumst þar við borð til þess að njóta útsýnisins.
Við höfðum séð stórt bílastæði við hliðið sem hefði verið tilvalið fyrir Bensa og rætt við eiginkonuna hvort það væri mögulegt að leggja þar í eina til tvær nætur. Vegurinn niður frá þorpinu var reyndar mjög brattur en við ættum að hafa það af. Hún gat ekki tekið ákvörðum ein og sér og varð að bíða eftir eiginmanninum.
Við sátum því góða stund og sötruðum kaffi og mauluðum á gulrótarköku og biðum eftir svari.
Þetta umhverfi var nánast of fínt og skipulagt til þess að geta verið staðsett hér við litið þorp upp í fjöllum en smán saman fylltist veitingarstaðurinn af fólki. Þetta virtist vera vinsæll helgar bíltúr borga í nágrenninu, ekki ósvipað og Eden var í gamla daga.
Eftir að við höfðum borgað fyrir þetta rándýra kaffi sem við fengum og farin að rölta af stað til þess að leita að konunni kom hún hlaupandi til okkar og sagði að við gætum verið á bílastæðinu.
Hér í Mið Ameríku eru lítið um skipulögð tjaldstæði og því verður að nota upplýsingar frá öðrum ferðamönnum og eigið hugmyndaflug til þess að finna gistingu. Ein aðferðin er að finna fjölskyldu veitingarhús og semja við eigendur um að borða hjá þeim um kvöldið og fá gistingu í staðin og það gengur yfirleitt mjög vel. Ég hafði gefið til kynna að við myndum borða hjá þeim um kvöldið ef að við fengum að gista. Til öryggis þá spurði ég konuna hvort hún myndi taka eitthvað fyrir gilstinguna. Hún hugsaði sig um og sagði svo hvort 15 dollarar væru í lagi. Einhverra hluta vegna greip heilinn á mér ekki þennan 1 á undan 5 og samþykkti og Kristján sagði ekkert. Þegar við vorum komin út af staðnum spurði kristján mig hvort mér findist þetta ekki ríflegt gjald fyrir að leggja bíl á bílastæði með enga þjónustu og þá áttaði ég mig á upphæðina og varð snöggvond bæði út í kellu og sjálfan mig. Ég hefði aldrei samþykkt meira en 5 dollara fyrir þessa tegund gistingu í þessum heimshluta og 15 dollarar var ósvífin tillaga en ég hafði fyrirgert rétti mínum til þess að prútta með því að samþykkja upphæðina strax.

Alegria in El Salvador

Við höfðum lagt Benza á fínum stað rétt fyrir neðan lögreglustöðina og fólk sagði okkur að það væri alveg örugg að vera þarna og við ákváðum að gista bara þar frítt og stutt í alla þjónustu og þorpsfjörið.
Við fundum þennan fína veitingarstað í þorpinu fyrir fólk laus við allt snobb með nánast jafngóðu útsýni og betri mat en á uppskrúfaða staðnum þarna fyrir neðan. Matar skammtarnir voru svo risastórir að við pöntuðum einn rétt og fengum tvo diska og urðum södd. Ég veit eiginlega ekki hverjir geta klárað þessa skammta en við sjáum reyndar töluvert af of feitu fólki hér, bæðu börnum og fullorðnum.
Þorpið er lítið en það eru samt veitingarhús á hverju horni og á kvöldin standa konurnar úti við gaseldavélina og búa til Pupusas í haugum og flestir þorpsbúar virðast borða þennan rétt i kvöldmat.
Pupusan samanstendur af maisdeigi (en ekki hvað) og fyllingu sem er yfirleitt annað hvort pulsumauk og ostur eða baunamauk og ostur. Fyllinginn er sett inn í miðjuna á deginu og það svo klappað saman á milli handanna þannig að úr verður þunn kaka. Þetta er svo steikt við mikinn hita og mis mikla olíu og borið fram sjóðandi heitt. Með þessu er borðað tómatmauk og súrt grænmeti úr hvítkáli. gulrótum og chili. Þetta er góður matur og ég verð södd af tveimur eða þremur og það kostar mig 30-50 isl kr. Kristján þarf fjórar.
Mexikanarnir eiga svipaða uppskrift en hugmyndaflugið þeirra í samansetningu á fyllingu er mun frjóara er hér.
Í eftir miðdaginn er nauðsnlegt að rölta sér niður á litla snyrtilega og innanhúsflísalagða torgið þeirra ásamt öllum hinum. Sýna sig, sjá aðra, horfa á börnin leika sér og segja góða kvöldið á spænsku og allir horfa á okkur forvitnum augum því útlendingar virðast sjaldgæfir hér og fáir sem gista.
Við vorum þarna yfir þrettándan og jólaskrautið skreytti enn torgið. Þorpsbúar hafa ræktað eitt grenitré í tugi ára, það eina í öllu fjallinu og næstu sveitafélögum. Þarna reis það glæsilegt hálfa leið upp til himins í einu horninu á torginu og bar höfuð og herðar og hálfan búk yfir öll önnur tré í nágrenninu. Oslóar tréð okkar bliknar við samanburðinn. Ég sagði tugi ára en við nánari skoðum á þykkleika bolsins gæti það hugsanlega talið hundruðin.

Alegria in El Salvador

Það er ekki auðhlaupið að skreyta slíkan risa enda náðu nokkrar ljósaseríur rétt að hanga lóðrétt niður rúmlega hálfan búk en einhverjum hafði samt tekist að troða giltri stjörnu á toppinn og það rétt grillti í hana þarna í fjarskanum. Búðir, stofnanir og fjölskyldur í þorpinu virtust svo hafa hertekið restina af trjánum og skreytt þau hver með sýnu listræna nefi og efnum. Sexhyrnda pavilíónið sem fyrirfinns yfirleitt á hverju aðaltorgi með vott af sjálfvirðingu var heldur skrautlegt, því hver bogi var skreyttur með ólíkum stíl og ekkert samræmi neins staðar. Eina sem var þokkalega samræmt var Jósep, María mey, jesúbarnið, vitringarnir og öll litlu dýrin gert úr tágum. Til þess að kóróna herlegheitin voru ljósa seríurnar yfirleitt spilandi hryllingur þannig að þarna ómuðu öll helstu jólalögin öll í einu í þessum holróma spiladósa stíl.
Þetta var draumur smekkleysunnar en hérna virtist þetta einhvern vegin ganga upp því einlægnin og sönn jólagleði skein í gegn. Ég gat reyndar ekki setið lengi á bekkjunum vegna þessa skelfilega hávaða úr öllum áttum en það virtist engin kippa sér upp við þetta nema ég.

Lago de Alegria in El Salvador

Daginn eftir gengum við upp fjallið tveggja kílíometra leið að vatni nokkru staðsettu ofan í gömlum eldgíg. Mjög fallegt svæði. Vatnið lítið og emerald grænt af völdum súlfurs og minnti okkur á vatn nokkuð í Kanada sem var eins á litinn og í svipuðu umhverfi, Ætlunin hafði verið að baða sig en þarna upp var svalt og vatnið kallt og við sátum því bara dágóða stund og nutum umhverfisins ásamt þó nokkrum El Salvadór búum.
Næsti áfangastaður var höfuðborgin San Salvador og mér kveið fyrir þvi að koma okkur í stæði þar en það gat varla verið verra en Mexikó borg?