Jól í Antigua

Jól í Antigua Guatemala

Ég hef aldrei haldið upp á jólin fjarri ættingjum. Verandi heilmikið jólabarn eins og meginn þorri Íslendinga þá kveið ég því að það yrði mér erfitt að hafa bara Kristján og Töru hjá mér. Ástkæra fjölskyldan myndi einungis birtast í skrikkjóttri mynd veraldarvefsins í örsmáum ögnum sem ferðast alla þessa leið til þess að safnast saman á skjánum hjá mér. Erfiðast yrði að sjálfsögðu að hafa ekki yndið hana Petru nema í fjarlægri mynd en við ættum öll að geta lifað þetta af í ein jól.

Í desember í fyrra vorum við stödd í Kaliforníu og það kom mér á óvart að sjá hvað einstaklingar skreyttu lítið hús sín með ljósum. Það þurfti að fara niður í miðbæ San Francisco á torgið sem allar dýru og fínu búðirnar umkringja til þess að sjá almennilegar jólaskreytingar og risastórt jólatré.
Jólaskreytingin hjá Macy´s var hreint og bein listaverk og ég gat staðið löngum stundum og starað á þær stóreygð eins og börnin sem héldu í hendur foreldrana. Engar vörur sýndar, bara litlir lokaðir gluggar eins og kassar, fullir af heillandi ævintýraveröldum lítilla blómálfa og annara furðuvera. Það er víst heild deild innan Macy´s sem hannar og býr til jólaskreytingar allt árið og þeir gátu sannarlega verið stolltir af útkomunni þessi jólin.

Bandarísk vinkona okkar sagði að afleiðing einkavæðingarinnar í Kalíforniu væri væri sú að rafmags verð væri orðið það hátt að fólk treysti sér ekki til þess að skreyta heimili sín ljósum og ég sem hélt að öll Ameríka væri uppljómuð eins og Ísland eftir að hafa horft á Amerískar jólamyndir.

Hér í Mið Ameríkunni eru það aðalega torgin og búðirnar sem eru skreyttar og það er lítið um skipulagt fínerý, hannað af meistara hönnuðum eins og hjá Macy´s en einlægnin og jóla andinn eru svo sannarlega til staðar.
Það var reyndar spurning um jóla andann við eitt neongrænt gerfi jólatréð á einu torginu sem við sáum á leiðinni. Það var gefið og skreytt af aðal bjórframleiðandinum hér í Guatemala "Gallo" (hani) og vörumerkið þeirra hékk út um allt tré en hér kippir sér engin upp við slík smáatriði.

Okkur langað til þess að splæsa á okkur smá lúxus í tilefni jólanna.
Vera í fallegri borg, fara á góðan veitingarstað og gista á almennilegu hóteli með kapal sjónvarpi, horfa á jólamyndir, jólasjónvarpsþætti og C.S.I.
Við áttum eftir að heimsækja Antigua í Guatemala sem er talin ein af fallegustu borgum Mið Ameríku og allur miðbærinn er á heimsmynjaskrá.
Antigua hljómaði því eins og fyrirmyndar jólaborg fyrir okkur og við þurftum þar að auki að fara með Töru til dýralæknis þar (sjá greinina um veikindi Töru).

Lonly Planet ferðabókin lýsir Antigua sem "Nestled between three volcanoes, Antigua is almost impossibly cute.... cobbled streets, mustard- and ochrecolored houses with colonial fittings, the leafy central park...." og annað hvort elski fólk borgina eða hati. Ég veit ekki alveg hvers vegna ætti að hata hana. Það væri þá væntanlega vegna þess að hún eins og lítið smáríki í litlum tengslum við landið í kring um sig. Hún er nánast of fullkomin, eins og hönnuð til varðveislu komandi kynslóða af einhverjum snillingnum. Veisla fyrir augað hvar sem litið er og hugað að öllum smáatriðum og ekki eitt einasta veggjakrot sjánlegt. Gömlu, fallegu colonial húsunum er vel við haldið og eru flest orðin að hótelum, veitingarhúsum, galleríum eða sérverslunum og ríkidæmið vel sjáanlegt án þess samt að vera of uppskrúfað. Mér vitanlega er þetta eini staðurinn í Guatemala þar sem ríkidæmið er svona sjáanlegt því annars staðar er það víggirt fyrir augum almúgans.

Hún er reyndar lifandi minnismerki um "kúgarana", eins og allar fallegustu borgirnar í þessum heimshluta, sem komu og stálu landinu og drápu niður þá merku menningu sem til staðar var því allt sem var ekki eins og þeir og vel kristið var "barbarismi" sem skildi kúga hvað sem það kostaði. Hvernig skyldi Mið Ameríka líta út í dag ef að spánverjar og aðrar landnámsþjóðir hefðu ekki komið hingað og breytt öllu sér í hag?

Við fengum að leggja Benza við gott úthverfi sem var samt í göngufæri við miðbæinn. Gatan inn í hverfið var lokuð af með keðju og varðmenn við hliðið allan sólarhringin. Það var hægt að semja við varðmennina um smá greiðslu fyrir að passa upp á okkur og bílinn.
Að samningagerð lokinni röltum við um allan bæ í leit að veitingarhúsi og hóteli fyrir jólin. Þau voru öll hverju öðru fallegra og öll i sönnum colonískum anda, smekklega hönnuð og öll smáatriði fullkomin. Hótelin voru rándýr á Guatemalskan mælikvarða og uppbókuð um jólin og veitingarhúsin rómantísk og fallega jólaskreytt með alþjóðlegan matseðil og fullkomlega lokuð á aðfangadag.
Það leit út fyrir að við þyftum að elda sjálf þegar við rákumst á þýsk ættað veitingarhús sem var einstaklega fallegt og vel skreytt en með frekar daufgerðan matseðil. Yfirþjóninn, ættaður frá Evrópu, fullvissaði okkur um að það yrði sérstakur jólamatseðil og við ákváðum að panta borð því við vildum borða innan um annað fólk.

Þarna fann ég fallegasta hótelið sem ég hef á ævinni séð rétt hjá bílnum okkar. Þetta var gömul kaffiplantekra sem hafði verið breytt i hótel og það hefði sæmt sér í hvaða hús og hýbýla blaði heim sem var en því miður kostaði nóttin 250 dollara sem er MJÖG dýrt hér í þessm heimshluta og stúlkan sem var að sýna okkur hótelið sýndi snobbaða framkomu sem mér líkaði ekki. Á öllum öðrum stöðum fengum við frábærar viðtökur.
Við fundum annað hótel þarna rétt hjá þar sem hægt var að leggja Bensa og hann öruggur. Þar fengum við risastóra íbúð með eldhúsi, einkagarði, arni og morgunmat. Mér fannst það heldur dýrt þangað til að ég uppgvötvaði að það var ódýrara en herbergi á farfuglaheimili í Reykjavík! og þar að auki gátum við haft hjá okkur veika hundinn sem var öll að braggast sem betur fer.

Aðfangadagsmorgun fórum við á markaðin, keyptum jólagjafir, jólarós, ávexti og risarækjur til þess að elda á jóladag og á leiðinni heim fundum við búð sem seldi heimagert konfekt er reyndist alveg ágætt þótt ekki kæmist það í líkingu við heimagerða truflið hans Kristjáns. Annars er mjög erfitt að kaupa nammi hér í þessum heimshluta fyrir utan sleikjó. Hér borða allir snakk og gos en ekki nammi.
Ég hafði keypt smá handgert jólaskraut til þess að gera Benza jólalegan og hann var orðn hreinn og fínn.

Veitingarstaðurinn var mjög hátíðlegur og jólalegur um kvöldið og við í okkar fínasta pússi. Maturinn komst hins vegar ekki nálagt jólamatnum heima hjá mömmu og pabba og það voru afar fáir þjónar að vinna og þeir fáu sem voru hlupu um kófsveittir því staðurinn var nánast fullur. Við vorum ekkert að flýta okkur og því pirraði þetta okkur lítið en ameríkarnir voru alveg að fara á límingunum.
Fyrir aftan okkur var átta manna borð sem bandarískur hópur hafði pantað. Eftir 8 mín. voru þau orðin óróleg jafnvel þótt þau höfðu fengið matseðlana í hendur og eftir 10 mín stóð höfuðpaurinn upp, tilkynnti það hátt og snjallt yfir hópinn að það væri engin þjónusta hér og þau væru farin aftur heim á hótel.

Hvað gerir maður annað á jólunum en að sitja og spjalla við fólkið sitt í rólegheitunum og hér var svo sannarlega umhverfið fyrir jólalegar samræður?Ætluðu þau bara að sitja inni á hótelherbergi horfa á sjónvarðið og svelta?

Annars hafa Bandaríkjamenn og Evrópubúar mjög ólikt viðhorf til þess að fara út að borða. Bandaríkjamenn vilja fá matinn sinn strax, skófla honum í sig og eru farnir. Á Bandarískum veitingarstöðum tók það yfirleitt jafn langan tíma og það tók mig að fara í gegn um matseðilinn og ákveða mig í rólegheitunum og skipta nokkrum sinnum um skoðum.
Kristján varð nánast að ota gaflinum í þjónana á meðan svo að þeir héldu sig í hæfilegri fjarlægð. Ef einhver heldur að ég sé að ýkja þá er það fjarri sanni. Marg oft horfði ég á eftir fólki með furðu og spurði Kristján "heyrðu kom þetta fólk ekki á sama tíma og við?" og er þá u.þ.b. búin að ákveða mig. "Jú elskan" sagði Kristján með óþrjótandi þolinmæði um leið og hann horfði illilega á unglinginn sem þorði ekki að koma í 4ja skiptið til þess að spyrja hvort við værum búin að ákveða okkur.
Eftir að við höfum fengið matinn á undraverðum tíma (mig grunar einna helst að þetta sé allt tilbúið og svo stungið í örbylgjuna) komu svo þessi sömu unglingar statt og stöðugt og spurðu með gerfibrosi hvort allt væri ekki í lagi og ég var ekki fyrr búin af disknum en hann var rifinn frá mér og reikningurinn kominn á borðið. Ég kenni skorti á torgum og dómkirkjum við þau um þessa skyndimatarmenningu en þetta er reyndar allt önnur saga.

Eftir jólamatinn röltum við niður á torg því þar átti að vera margmenni tilbúið að skjóta upp rakettum á miðnætti en það voru fáir á ferli þannig að við röltum okkur bara heim.
Þar reyndi Kristján af mikilli elju að kveikja upp í arninum á meðan ég kveikti á kertum og hitaði súkkulaði. Uppkveikjan gekk frekar illa enda Kristján í lélegri þjálfun því við höfum varla kveikt eld síðan í Bacha Californiu og engin öxi við hendina og við létum því bara kertalogana nægja. Við tókum síðan upp pakkana, sötruðum súkkulaði, mauluðum á konfekti og hugsuðum heim.

Þetta urðu eins góð jól og hægt er að hafa þau fjarri fjölskyldu og vinum og eftir jól héldum við áfram að skoða hvern krók og kima og læðast inn í alla garða sem við hugsanlega gátum í þessari fallegu borg og fundum meir að segja ódýra matsölustaði innan um alla þessa dýru og hlustuðum á cubverska salsasveiflu hjá einum af meðlimum Bueno Vista Social clubb bandinu.
Umhverfi Antigua er jafn fallegt og hún sjálf með þrjú keilulaga eldfjöll sem vaka yfir borginni og eitt þeirra er virkt. Hún er yfir þúsund metra hæð og því þægilega svöl á kvöldin og nóttunni.
Antigua er af stærstum hluta til svona falleg og vel við haldið vegna allta túrhestana sem þangað koma með peninga til þess að eyða. Hingað koma einnig þeir ríku Gvatemalabúar sem fyrirfinnast til þess að slappa af frá ys og þys og óöryggi höfuðborgarinnar sem er þarna skammt undan.

Fyrir mér er þessi borg lítill gimsteinn sem hægt er að njóta jafnvel þótt maður eigi ekki mikla peninga. Sumum finnist hún tilgerðarleg og snobbuð en fyrir okkur þá var hún kærkomin tilbreyting frá öllum "orginölunum" sem við höfum heimsótt undanfarið jafnvel þótt að hún væri svolítið eins og leiksvið þar sem við fengum að vera ein af auka leikurunum
Eina önnur borgin sem ég hefði viljað eyða jólunum í (fyrir utan Reykjavík) er San Cristobal í Chiapas Mexikó. Ekki eins skipulega falleg og Antigua en einstaklega mannleg og sjarmerandi með fáa túrhesta á þessum tíma en í staðinn fullt af raunverulegu, viðkunnalegu, mexíkönsku fólki með sérstaklega lifandi miðbæ þar sem alltaf var eitthvað að gerast.

Þessi tími leið allt of hratt og ég hefði gjarnan viljað eyða áramórumun þarna því almennilegu veitingarhúsin voru opin og hægt að skreppa á skemmtistað um kvöldið lægi hugurinn þangað. Þetta var hins vegar því miður ekki hægt því leyfið fyrir bílinn rann úr 1.jan og við þurftum því að bruna til El Salvador og halda upp á áramótin þar.