Veikindi Töru

Veikindi Töru


Tara i San Pedro

Tara veiktist illa. Hún varð það veik að á tímabili hélt ég að við myndum missa hana. Ég veit ekki alveg hvenær hún veiktist, kannski í Finca Ixcobel eins og við eða kannski fyrr. Hundar eru víst mjög góðir í að leyna veikindum sínum og við vorum svo slöpp eftir okkar eigin veikindi að við áttuðum okkur ekki á því hvað var að gerast með hana.


Tara í vandræðum í Finca Ixobel eftir að hafa kafað í ruslatunnuna

Bensín tankurinn á Benza hefur aðeins færst til í öllum þessum hristingi og hraðahindrunum þannig að við komum ekki neðstu tröppunni lengur út (þurfum því aftur að finna almennilegan suðumann). Það er því ansi hátt upp í fyrstu tröppuna, en hingað til hefur Tara tekið smá tilhlaup og svifið inn í bíl eins og hástökkvari í úrvalsflokki öldunga.
Í seinni viku veikinda okkar hjóna tók hún undir sig stökk til þess að komast inn í bíl en hitti ekki neðstu tröppuna og hrundi niður. Eftir það fór ég að taka eftir því að hún var óstyrk á afturfótunum, það tók hana lengri tíma en áður að standa upp og hún rétt tölti á eftir okkur þótt að við gengum hæg. Við héldum að hún hefði eitthvað tognað þegar hún hrundi úr tröppunum og ætluðum að fara með hana til dýralæknis í Antigua sem er rík borg á Gutemalískan mælikvarða og því væntanlega góðir dýralæknar þar.


Tara bíður eftir lækninum

Eftir að við höfðum jafnað okkur af veikindunum fórum við til Río Dulce til þess að róa kajaknum niður ánna til þorpsins Livingston sem liggur við ármynnið. Á leiðinni stoppuðum við í tvær nætur í frumskógar hóteli og leigðum okkur kofa þar. Tara átti erfitt með að fara upp og, þó sérstaklega, niður tröppurnar og hún hafði ekki lyst á matnum sínum sem er MJÖG óvanalegt og hefur bara gerst einu sinni áður þegar við keyptum handa henni mat við við lake Atitlan sem hún vildi ekki sjá og ekki var hún veik þá.
Hún var jafnframt farin að stíflast í nefinu og anda hratt eins og hún væri að kvefast og vildi lítið hreyfa sig.

Við héldum áfram á kajaknum niður til Livingston og vorum þar í einn sólarhring en þurftum síðan að fara aftur á hótelið því taskan fyrir bátinn hafði orðið eftir þar. Þá var orðið ljóst að hún var veik en ekki bara tognuð á fæti. Ætlunin var að fara strax daginn eftir til Antigua en þegar við vöknuðum var hún orðin mjög veik og hafði versnað mikið sl. sólarhring. Hún gat varla staðið upp og við þurftum að bera hana út til þess að pissa og þá slagaði hún um eins og dauðadrukkin. Hún andaði hratt og grunnt, það var farið að hrigla í henni og hún reyndi að hósta af bestu getu og hún skalf eins og hún væri með hitasótt. Ég mældi hana en hún var ekki með hita. Eigendur hótelsins sögðu að þar væri dýralæknir í nágrenniniu en hann meðhöndlaði aðalega á kýr og hefði litla reynslu af gæludýrum en þau þekktu hins vegar dýralæknir í Guatemala borg sem væri mjög góður og talaði ensku. Þau reyndu að hringjaí hann fyrir mig en hann var í aðgerð þannig að þau lögðu fyrir hann skilaboð um að hringja þegar hann væri búin. Þegar ég kom til baka óttaðist ég einna helst að hundurinn væri að drepast þvi andlitið á henni hékk einhvern vegin niður og hún horfði á okkur lífvana vondaufum augum og liturinn á munnslímhúðinni ekki glæsilegur sem gat bent til sjokk ástands og hún virtist hafa elst um 5 ár.


Tara í skoðun

Ég hafði fundið tikk á henni (andstyggileg skorkvikindi sem líkjast einna helst bjöllum sem bora hausnum inn í húðina og sjúga blóð) jafnvel þótt að ég hafi borið tikk varnandi olíur á hana. Þessi kvikindi geta borið með sér Lime disese og hennar einkenni pössuðu svo sem ágætlega við þann sjúkdóm. Við grófum því upp bandaríska dýralækna síðu á netinu sem sagði að Tetracyclin sem er gamalt en breiðvirkandi sýklalyf væri rétta lyfið við þessum sjúkdómi . Á meðan ég hljóp upp í apótek skrifaði Kristján Helgu dýralækni heima á Íslandi ef ské kinni að hún gæti eitthvað hjálpað okkur. Hún skrifaði strax til baka en gat litið aðstoðað í geng um netið því hér eru alls kyns sjúkdómar sem finnast ekki heima.

Apótekið átti ekki nema 500 mg hylki af Tetracyclini sem er ansi ríflegur skammtur fyrir litla hunda en ég ákvað bara að gefa henni risaskammta þangað til að við kæmum henni til dýralæknis.
Síðan var keypt handa henni luxus skinnka til þess að koma ofan í hana töflunum því hún var nánast hætt að borða og drakk lítið.

Við vissum ekki alveg hvort við áttum að bruna af stað með hana svona fárveika eða bíða etir símtali frá þessum dýralækni til þess að fá ráðgjöf um rétt lyf og skammtastærðir. Við ákváðum að bíða. Skrambans dýralæknirinn hringdi aldrei þrátt fyrir ýtrekaðar tilraunir til þess leggja fyrir hann skilaboð. Ég veit ekki hvort stúlkan á símanum gleymdi skilaboðunum jafn óðum eða hvað.
Tara hresstist hins vegar töluvert við sýklalyfin okkur til mikils léttis.
Daginn eftir hitti Kristján konu sem þekkti Bandarískan dýralækni í Antigua og var með símanúmerið og heimilisfangið hennar. Þar sem sýklalyfin virtust virka ákváðum við að fara beint þangað því það þorp er ekki langt frá Guatemala borg og mun auðveldara að finna eitthvað þar og allt í göngufæri.
Það sprakk á Benza á leiðinni og við lentum í hrikalegri umferðarteppu við höfuðborgina (því þeir eru alltaf eitthvað að gera við vegina) þannig að við komumst ekki til Antigua fyrr en seint á öðrum degi. Tara var orðin miklu hressari en enn þá slöpp til gangs, gekk hægt og slagaði svolítið.

Við hittum svo hana Cinthyu, Bandaríska dýralækninn sem hefur búið í Antigua í 20 ár. Hún byrjaði reyndar á því að hræða okkur verulega því hún fann eitthvað þykkildi undir kviðnum á Töru sem ekki átti að vera þar. Sem betur fer reyndist það ekki krabbamein heldur stækkað millta í tengslum við veikindin.
Blóðprufur leiddu i ljós að hún hafði verið að berjast við svæsna sýkingu í einhvern tíma. Við sauðirnir höfðum ekki vitað neitt og kenndum bara hitanum og vaxandi aldri um slappleika hennar þegar hann var í raun og veru afleiðing blóðleysis því sýkingin hafði étið upp rauðu blóðkornin.
Við höfðum sjálfsagt rétt náð að bjarga henni með því að gefa henni sýklalyfin.
Dýralækninum fannst ólíklegt að þetta væri Lime sjúkdómurinn en í þessum heimshluta bera tikkið með sér alls kyns kvikindi sem valdið svæsnum sýkingum og hún hélt því áfram á sýklalfjum og fékk járnmixtúru og við keyptum handa henni mjög góðan hundamat með LAXI sem hún elskar ásamt næringarríku hvolpamauki til þess að bæta næringarástandið.

Núna er þessi elska aftur farin að skokka um og þefa uppi rusl og aftur farin að mótmæla létt þegar Kristján klessir nefinu á sér upp að nefinu hennar og um daginn gleymdi hún því hvað hún hafði verið slöpp og stökk upp í bíl en bara einu sinni. Núna hleypur hún að bílnum byrjar að taka undir sig stökk, snarhættir, lítur við og bíður eftir að sér verið lyft upp í bíl eins og lítil prinsessa.
Við fundum aðra og betri olíu til þess að bera á hana sem á að fæla í burtu alls kyns kvikindi og svo fær hún Hart garde töflur einu sinni í mánuði sem á að drepa algeng snýkjudýr og orma.
Hún hefur aftur yngst um þessi 5 ár þrátt fyrir hitan sem er hér á ströndum El Salvador og við fáum vonandi að hafa hafa eitthvað lengur hjá okkur því hún er góður félagsskapur og vekur hvarvetna athygli vegna fegurðar, jafnvel hér í Mið Ameríku og fólk er stöðugt að spyrja okkur hvort við eigum ekki hvolpa undan henni. Við höfum ekki séð hennar tegund hér en það er svolítið um cokker spaniel hunda sem líkjast henni töluvert en eru minni.