Dekkjaævintýri

Dekkjaævintýri

Spennandi augnablik skortir ekki í þessu ferðalagi og flest þessara augnablika tengjast Bensa á einn eða annan hátt.
Benzi er náttúrulega engin unglingur lengur og reyndar töluvert síðan hann komst á fullorðins ár og það er því ýmislegt smávægilegt sem getur komið upp á s.s. eins og gat á loftslöngu fyrir bremsurna í miðjum fjallgarði við Coppar Canion í Mexíco.

Við höfðum keyrt í fjóra tíma yfir fjöllin á mjóum vegi og engin leið að stoppa til þess að dást að útsýni þegar við heyrum þetta rosalega hviss og bremsurnar fóru smám saman að læsast. Ég fölnaði að sjálfsögðu upp því það var áliðið dags og myrkrið ekki langt undan. Bremsurnar hertu smán saman takið á meðan við leituðum í örvæntingu að einhverjum stað til þess að fara út af veginum. Við sáum fram á að þurfa að stoppa á miðjum vegi þegar skyndilega kom í ljós smá sylla fyrir utan veg sem passaði akkúrat fyrir Benza. Kristján gat rétt stýrt honum þangað með því að beita öllu afli.
Við gátum ekki annað en sofið þarna og daginn eftir gat Kristján skítmixað, og það er kúnst sem hann er orðin mjög góður í. Við komumst klakklaust á áfangastað daginn eftir og gátum skipt um slöngu.

Dekkin eru orðin frekar slitin en það sem við álitum að regntíminn hlyti að verða búin enda komin desember þá höfðum við ákveðið að keyra þau alveg út, því skiptimynta buddan er ekki tekin fram þegar keypt eru ný dekk.

Einn versti vegurinn sem við höfum keyrt hingað til í mannabyggðum er 20 km spölur frá landamærum Belize fyrir í Guatemala. Vegna einhverja ættingja og stjórnmála spillingu hefur hann ekki verið malbikaður þrátt fyrir endalaus loforð. Það hafði ringt heilmikið undanfarna daga og eftir nokkra kílómetra sáum við bíla spóla og skauta um í drullusvaðinu sem vegurinn var orðin. Við héldum að þetta yrði nú ekki mikið mál fyrir Benza með sín risadekk, fjórhjóladrif og háa og lága drifið og þar að auki var ekki mjög langt í malbikið.

Þessi leir drulla reyndist vera eins fíngerð og hægt er, nánast eins og blautt duft og hún klesstist einfaldlega í þær rifur sem eftir eru á dekkjunum og bjó til rennislétt dekk. Benzi fór að skauta um eins og hinir þrátt fyrir öll drifin og þótt að við keyrðum einungis á 5km hraða á klst. Kristján átti fullt í fangi með að hafa einhverja stjórn á bílnum og ég var orðin föl af spenningi og var hálf staðin upp í sætinu og mátti varla mæla þvi það leit alls ekki út fyrir að við myndum hafa það. Við vorum reyndar ekki í neinni hættu það augnablikið því landslagið var slétt. Mín martröð fólst í því að það var orðið áliðið dags eins og þegar loftslangan fór og ef að við myndum festast á miðjum vegi hvað þá! Það er ekki eins og það sé hægt að ýta honum út í kant! og hver átti að koma okkur í burtu?
Sem betur fer hélt vegurinn áfram að vera rennisléttur og við þurftum hvorki að fara upp né niður brekku enda hefðum við hvorugt getað. Þessi martröð stóð yfir í 20 mín og þá skyndilega vorum við aftur komin á veg! þótt ekki væri hann malbikaður. Ég hef sjaldan verið eins feginn á ævi minni. Myrkrið var að skella á og við fundum nokkur hús er stóðu við fótboltavöll og við spurðum hvort það væri í lagi að leggja þar eina nótt. Íbúarnir buðu okkur bara velkomin og þar gistum við örugg og sæl.

Næsta dekkjaævintýri var við tjaldstæðið í Finca Ixobel. Mjög fallegt svæði með stórum grasagarði. Við ókum Benza fyrir framan salernin og stoppuðum þar til þess að ákveða gististað en gerðum okkur ekki grein fyrir því að jarðvegurinn var gegnsósa og moldin jafn fíngerð og áður. Benzi sökk með öllum sínum þunga ofan í jarðveginn og festist á jafnsléttu!
Ég var nú ekki mjög ánægð með tryllitækið í það skiptið en Kristján bölvaði dekkjunum. Það var heljarinnar fyrirtæki að koma honum upp út þessu og á öruggan stað en að tókst að lokum að aðstoð garðyrkjumanna en jarðvegurinn var illa farinn eftir okkur.

Núna erum við að keyra í áttina til Antigua til þess að halda upp á jólin. Fyrir stuttu síðan heyrðum við þennan svakalega hvell og okkur krossbrá. Jól og áramót eru að koma og hér eru allir hvellettu óðir og við héldum að einhver hefði verð að sprenga.
Stuttu síðar fór loftdælan að pumpa í eitt afturdekkið og við stoppuðum og fundum stórt gat á dekkinu. Sem betur fer var dekkjaverkstæði hér rétt hjá og þeir ætluðu að reyna að setja tappa í gatið. Það hafði víst verið gert við þennan stað áður með bót en engum tappa og það var bótin sem hafði rokið út og valdið hvellinum.
Gatið var hins vegar það stórt að þeir átti ekki nógu stóran tappa og fundu hann ekki í þorpinu.
Dekkið er þar að auki mjög illa farið sjálfsagr eftir ævintýra stórgrjóta veginn í Bacha California og dæmist eiginlega ónýtt. Það var því ekki um annað að ræða en að ná í varadekkið sem, eins og allir vita, er uppi á þaki og við höfum forðast þá tilhugsun eins og heitan eldinn hvernig við förum að því að koma því niður.

Kristján varð því að prýla upp á þak en ekki tók neitt betra við því festingarnar fyrir dekkin eru kolryðgaðar fastar og högguðust lítið þrátt fyrir nokkur stóvirkar vinnuvélar og kraftmikla karlmenn.
Íslensk þrjóska er nú ekkert venjuleg og upphandlegsvöðvarnir voru í óvenjulega góðu formi eftir allan róðurinn undanfarna daga og þetta losnaði allt að lokum en það leit ekki vel út á tímabili. Ég og dekkjaviðgerðarmaðurinn vorum skíthrædd við þetta monsterdekk þegar hann var að hala það með talíunni niður af þakinu en allt hélt og niður fór það og undir bíl.
Við vildum setja hitt nýja varadekkið undir hinum megin en hann taldi það algjöran óþarfa no, no, no og baðaði úr örmum í allar áttir. Hann vildi bara losna við þessa klikkuðu íslendinga sem allra fyrst og það var orðið áliðið dags eins og svo oft áður.
Ég held að dekkjaviðgerðamennirnir fari fram á áhættuþóknun í framtíðinni.

Þannig að núna sofum við fyrir utan Essó bensínstöð með vörð vopnaðan vélbyssu að passa okkur. Kristján var svo heppinn að það er veitingarstaður hérna og hann slafraði í sig þremur bjórum sem hann hafði svo sannarlega unnið fyrir (ég fékk bara einn af því að þar var frekar lítð gagn af mér nema til þessa að taka myndir og sína minn móralska stuðning og svona einsrtök hvattningar óp)
Bensínstöðvarnar eru reyndar ekki bestu svefnstæði í heimi því þær eru staðsettar við aðalgötur og það er mikil umferð einkum flutningabíla sem eru ótrúlega hávaðavaldar og nota mórorbremsuna sína óspart jafnvel inn í miðjum bæ (eitthvað sem er algerlega bannað í bandaríkjunum einmitt sökum hávaða). Það er því ekki fyrir svefnstygga að sofa þar en þeir sem þekkja okkur kristján vel vita að við þjáumst ekki af því vandamáli en þó hrökkvum við upp við einstaka mótorbremsu.
Á morgun Antikua her we come. eins gott að það sé jólalegt þar.

country: