ÚtrásarvíkingurINN

Litlir regndropar gáruðu annars spegilsléttan sjóinn við næturstað okkar í þessum þrönga firði. Það var ekkert lífsmark sjáanlegt í húsunum í nágrenninu. Kannski ekki skrítið, flestir íbúar sjálfsagt enn í rúmum sínum eða einhverjum öðrum enda skírdagur. Við sötruðum kaffið okkar á bryggjusporðinum þrátt fyrir léttan rigningarúða því það var svo friðsælt og notalegt þarna úti við. Búið að spá aukinni ringnigu þennan dag en við vonuðum það besta. Ókum út fjörðin sem skyndilega opnaðist með smá flatlendi og hæðum og litlu dalverpi. Fjöllin voru ekki lengur bara ein samfelld breiða heldur urðu að einskaklingum sem skáru sig hvert frá öðru. Á flatlendinu og á hæðunum allt í kring hafði byggst upp þorpið Dale sem gat státað af verulega fallegu bæjarstæði, flausturslegum vísi að miðbæ og a.m.k. einu kaffihúsi sem líktist reyndar frekar kaffiteríu. Við þurftum að bíða eftir ferjunni í rúman klukkutíma og tókum því góða morgungöngu um syfjulegt þorpið.


Hér gæti ég alveg hugsað mér að búa sagði Kristján. Ég hummaði, vil helst ekki búa í bæ sem setur ljóta verslunarmiðstöð á skjön við allan annan arkitektúr á besta stað bæjarins og bensínstöð á þann næstbesta.Rigningar úðin var á undanhaldi og við vonuðum að norskir veðurfræðingar gætu haft jafnt rangt fyrir sér og þeir íslensku. Ferjan kom og um borð fórum við, japönsk fjölskylda á pínkubíl og hjólreiðar par á stuttbuxum með heldur stóra bakpoka.


Því miður fór að bæta í rigninguna þegar við keyrðum út fjörðin sem opnaði sig sífellt meira. Þokubakkarnir lögðust yfir fjöllin og drógu úr hinu víða útsýni en ljóst var að þetta var einn af hinum undurfögru norsku fjörðum.


Mikil varð undrun okkar þegar við keyrðum skyndilega fram á risavaxna styttu sem leit nákvæmlega eins út og styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli!! Við stoppuðum Hyppó við fyrsta tækifæri og hlupum til baka og viti menn, þetta var engin sjónvilla eða heimþrá í þokunni heldur stóð hann Ingólfur Arnarsson sjálfur þarna á háum stalli hafði lagt hönd á enni og skimaði í átt til Íslands.Við höfðum sem sagt rambað fram á fæðingarstað hans án þess að hafa hugmynd um hann kæmi frá Dalefirði. Stytta þessi var gjöf frá Íslendingum til frænda sinna Norðmanna með tilvitnun í Hávamál um að maður eigi að styrkja vinasambönd (lausleg þýðing). Það hefur nú heldur betur þurft að ganga eitthvað á til þess að einhver fari að yfirgefa þetta fallega og gjöfula landsvæði til þess að halda út í óvissuna og enda þar að auki á Íslandi (aumingja maðurinn)


Því miður herti bara á rigningunni og við sáum lítið þennan dag. Komum við í stæsta bæ fylkisins, Förde en ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Hafði einhvern vegin séð hann fyrir mér með fallegum miðbæ úr gömlum fallegum timburhúsum en það var nú öðru nær. Forljótar, múrsteinshlaðnar, verslanamiðstöðvar og bensínstöðvar og ekkert kaffihús sjáanlegt. Ljótt og aftur ljótt. Nú tala ég bara um miðbæjarkjarna sem mér finnst alger nauðsyn fyrir lífvænlegri búsetu. íbúðarhverfin eru mjög falleg og snyrtileg með sínum vel við höldnu timburhúsum og ræktanlegum görðum. Okkur tókst þó að kaupa lítið ferðagrill sem leggst saman í einu handfangi og sundur í öðru og litla poka með kolum sem sett eru beint ofan í grillið og passar akkúrat og svo bara að kveikja í. Engir svartir kolamolar og uppkveikilögur sem getur farið út um allt.


Stoppuðum við smábátahöfnina í Florö til þess að elda okkur súpu í hádeginu og hér vorum við farin að sjá úthafið og landslagið farð að breytast, trjám að fækka og klappir komnar i staðin með heiðargróðri. Í þetta þorp virðast koma bátar á sumrin og einhverjir ferðabílar því við virtumst vera parkeruð í stæð fyrir slíka en engin miðbær af viti.Ákváðum að fara út í eyju til að skoða eyjafólk og fá beinan aðgang að úthafinu.Til þess þurfti einn eina ferjuna frá Kjellness yfir í Smörhamn og þaðan yfir í Kalvog. Ég var orðin þreytt. Það er eins og rifin vilji ekki halda mér uppi og virkja endalausa sársaukapunkta og ég varð að fara að leggjast og hvíla mig og þetta þrátt fyrir að hafa barapúðan undir höndum til þess að létta á rifjunum og teygja reglubundið, vonbrigði.


Fundum fljótlega bryggju sem var ekki í notkun og staðsett rétt fyrir utan þorpið. Við lögðum þar og tókum fram nýja fína grillið. Reglulega falleg staðsetning, með fullt af litlum eyjum á milli hina tveggja stóra eyja og brúin á milli. Stytt hafði upp og hlýnað. Vaknaði bara einu sinni upp við skjálfta en náði að sofna fljótt aftur.

country: