Eyjalíf

Dagurinn tók á móti okkur syngjandi glaður þegar við skreiddumst út úr bílnum og sendi geilsa sólar út í hvert skúmaskot. Loksins að koma vor eftir einn kaldasta vetur í mörg herrans ár hér í Noregi. Ég var álíka glöð því nú stóðu vonir til þess að mér færi að hlýna og gæti farið að fækka fötum. Fengum okkur morgunmat i rólegheitunum og horfðum á fuglana leika sér á spegilsléttum haffletinum og skuggana víkja af litlu eyjunum og óskuðum þess að við værum með uppblásanlegan kæjakinn í bílnum.


 Það var föstudagurinn langi og því ástæða til þess að taka lífinu með ró.


Hinum megin við beitingarskúrinn fyrir ofan sjóin var lítli byggð (Íbúðarhúsin eru byggð upp á hæð eða upp í fjalli og litla undirlendið sem myndast niður við sjó er notað sem tún). Ekki langt frá var lítil eyja rétt við land og lá göngubrú út í hana. Heima á Íslandi er fjara almenningur og allir eiga að geta gengið hana án vandræða en ég veit ekki alveg hvernig þetta er hér í Noregi. Langaði að rölta út í þessa eyju til þess að ná úr mér morgunstirðleikanum en var hún einka eður ei? það voru a.m.k. engar girðingar. 


Í túninu var rétt rúmlega miðaldra maður að þjálfa litla beagel hundinn sinn. Agalega sætt lítið kvikindi sem tók þjálfunina temmilega alvarlega.Ég ákvað að spjalla aðeins við manninn og athuga með leyfi til þess að fara út í eyju. Hann hélt það nú! þar var meira að segja bekkur sem við gætum notað til andlegrar íhugunar ef við vildum. Litla hundkvikindið reyndist verðandi veiðihundur, átti að finna dádýr í skóginum í framtíðinni en var heldur lítill ennþá og fagnaði okkur eins og við værum ættingar heimtir úr helju. Við fengum saknaðar sting í brjóstið og óskuðum þess að Pjakkur litli væri með okkur. Það er nú meira hvað maður getur saknað hundana sinna. Kannski vegna þess að þeir eru allt um kring og maður snýr sér varla við án þess að fá á sig starandi spurnar augnarráð, ganga núna? ganga núna? en núna??? endalaus gleði og aðdáun á öllu því sem maður gerir og jafn endalaus trúmennska og hlýja og mjúkur feldur.


Við röltum af stað úr í eyju og hundurinn ákvað að nú væri komið nóg af æfingum og fylgdi okkur eftir, skoppandi af gleði og hnusandi í allar holur. Lafandi eyrun lögðst þétt yfir hlustirnar og hann heyrði ekki einu sinni óm af rödd eigandans sem reyndi að kalla hann til sín. Eigandinn gafst fljótlega upp og kallaði til okkar að hundurinn mætt alveg fylgja okkur út í eyju. Eyjan tilheyrði auðsjánlega fjölskyldunni og útbúin sem ævintýra svæði fyrir börnin. Hefði maður nokkuð verið til í svona ævintýraeyju sem krakki lesandi 5 fræknu og allar hinar  Edith Blyton bækurnar!!! 


Kona mannsins var ættuð héðan og þau höfðu byggt sumarhús á lóð foreldranna en bjuggu í bæ mun sunnar. Við röltum um eyjuna og nutum náttúrunnar og útsýnisins og vaxandi hita sólarinnar. Gengum upp að húsi til þess að skila hundinum svo að hann færi bara ekki með okkur. Eigandinn sat á veröndinni með kaffikrús og illa dulin vonbrygði yfir ótrygglindi hundsins.


Við fórum að sjálfsögðu að spjalla um veðrið eins og sannir íslendingar og maðurinn sagði okkur að það væri sjaldgæft að sjórinn væri svona spegilsléttur hérna. það væri yfirleitt hafgola frá úthafinu og hann bauð okkur fallega trébátinn sinn ef að við vildum róa í kring um eyjarnar, hann sjálfur hafði farið smá túr við sólarupprás. Við þökkuðum kærlega fyrir gott boð, kannski seinna og kvöddum með virktum.Þorpið byrjaði með dreyfðri byggð fyrir ofan veg og tún fyrir neðan, svo kom kirkjan og síðan þéttist byggin í kring um voginn sem myndaði náttúrulega höfn. Hér höfðu víkingar sest að til þess að veiða því náttúrulega höfnin veiti skjól fyrir ólgandi úthafi og auðvelt að leggja að landi og hér voru nútíma norðmenn enn að veiða og leggja að bryggju.


Litli vogurinn var því ein nánast samfelld bryggja. Fiskvinnslan öðru megin en ferðamennskan hinum megin með smábátahöfn, hóteli, bar og veitingarstað og reyndar ennþá nokkur fiskihúsum einstaklinga sem áttu litla báta. Þarna var líka verið að byggja nokkuð stórt hús við sjóinn sem átti að verða heilsuspa og þeir ætluðu að búa til litla hvíta sandfjöru. Öllu mjög vel við haldið og fiskihúsin máluð í þessum fallega dumbrauða lit. Mollið var, eins og í öðrum þorpum sem við höfðum keyrt i gegn um, á besta stað í bænum en það var þó byggt í sama arkitektúr og annað niðri við höfn og stóð því ekki út úr eins steingert tröll í vondu skapi. Litlu göturnar lágu þvers og kurs með fínu tréhúsunum sínum með stórum veröndum. Veðrið var yndislegt, sól, logn og hlýtt. Húseigendur að tínast út á verönd og veitingar að hlaðast á borðin.


Gengum fram á gallerý sem var opið þátt fyrir föstudaginn langa og við fórum að sjálfsögðu inn. Eigandinn gaf sig á tal við okkur. Hún var frá Bergen en var hér allt sumarið og um helgar á veturna. Það kom í ljós að þetta var einn vinsælasti staður bátafólksins á vesturströnd Noregs og því líf og fjör þarna á sumrin. Þessi kona vann með þæfða ull og hafði margsinnis komið til Íslands m.a. með námskeið á Norðurlandi.


Þorpið vantaði reyndar notalegt kaffihús því veitingarhúsin virtust ansi kaffitreíulegt og hér er vissulega sóknarfæri þegar túrhestarnir fara að vakna úr vetrardvala. Flott að búa hér á sumrin og reka kaffihús og fara svo eitthvað annað á veturna. Leist mjög vel á þennan bæ. Aðalatvinnuvegurinn ennþá fiskur, bæði útgerð og litlar trillur og svo létt heimilislegur ferðamannaiðnaður.


Röltum dágóða stund um Kalvog en það var litið um að vera því ferðamennskan er ekki byrjuð og allir í páskaleti.


Keyrðum hinn veginn á eyjunni sem var að mestu malarvegur og vinsæll meðal fjallahjólafólks. Stoppuðum á fallegum útsýnisstað, elduðum súpu í hádeginu, Kristján fór að veiða en ég setti úr teppið og naut sólarinnar.


Þessi eyja hafði mjög góða áru en okkur langaði að skjótast hinum megin sundsins fyrir kvöldmat því maðurinn með hundinn hafði sagt okkur að þar væri fallegt þorp með hvítri sandströnd.


 


 


 


 


 


 


 

country: