Góðmennska ókunnugra

Til er steinn nokkuð merkilegur hér í Sogn og Fjordene. Kristján hefur dáðst að honum á myndum en aldrei vitað fullkomlega hvar hann er staðsettur (frekar en hann hafði hugmynd um Ingólf Arnarson). Steininn stendur í fjöru alveg niður við sjávarmál og hefur þurft að þola níðþungan koss úthafsöldunnar árþúsundum saman. Kossinn sá er svo öflugur að hann hefur mótað steininn eins og steðja. Ef horft er beint framan á hann með hafið í baksýn, situr hann nokkuð traustur í fjörunni en mjókkar svo upp í örmjóan þráð en þar ofan á hreykir sér stór og myndarlegur fjörusteinn eins og í málverki eftir  Salvardor Dali.

Við komumst að því, skoðandi upplýsingarvegakort á meðan við biðum eftir enn einni ferjunni, að steinn þessi væri ekki langt í burtu út í eyjunni Målöy og það var tekin snaggaraleg einróma ákvörðum að berja fyrirbrigðið augum og kannski smella af einn mynd eða svo. Það reyndist vera brú út i eyju, ein af fáum á leiðinni, beint yfir í aðalbæinn. Við áttum eftir að kaupa páskasúkkulaðið (kristján var ennþá sár yfir að ég skildi ekki hafa komið með páskaegg að heiman) og lögðum þvi í miðbænum. Hann er nógu stór til þes að státa af búðargötu en því miður hefur gömlum húsum verið fórnað fyrir hinn skelfilega seventis arkitektúrinn þar sem markmiðið virðist hafa verið að búa til sem ljótasta ferkanntaðasta húsið málað í jafn ljótum litum, og gæta þess að það væri ekki í nokkru samhengi við það sem fyrir var.

Miðbærinn sátaði þó af einu mjög huggulegu kaffihúsi(ásamt öðrum kaffiteríulegum) og þar voru allir að sötra kaffi og spjalla jafnvel þótt umhverfið við útiborðin væri ekki aðlaðandi. Bærinn sjálfur var hins vegar mjög fallegur að sjá þar sem hann læddist upp eftir öllum hlíðum.

Engin ástæða til þess að stoppa lengur í þessum bæ en sem nemur kaupum á einu stóru súkkulaðistykki og brunuðum við af stað í átt að steininum fagra á 30km.klst hraða á örmjóum, hlykkjóttum vegi sem endaði skyndilega. Og þarna stóð hann, teinréttur og stoltur og leiddi hjá sér þá niðurlægingu að hafa einhverja túrhesta prílandi á sér. Mikið rétt, við vorum ekki þau einu sem hafði látið það hvarfla að sér að skoða þennan merka stein á þessum blíðviðrisdegi. Austur evrópskt vinapar óð þarna um allt, tiplandi á sleipum fjörusteinum og drengirnir smelltu af myndavélum í gríð og erg um leið og stelpurnar pósuði eins og súpermodel í Vougeauglýsingu.

Ég settist á bekk og fylgdist spennt með. Það var nokkuð ljóst í mínum augum að einhvert þeirra myndi stórslasa sig, en furðulegt nokk, þau rétt sluppu.

Því næst mætti Norska fjölskyldan með einn ungling í svörtu með öfuga derhúfu og dööö atitut sem neitaði alfarið að aðstoða systkini sín sem lágu í 45gráðu beinni línu niður á við. Sá yngsti c.a. 5ára. (og mamman ófrísk!!!) Þetta voru allt litlar óhræddar klifurgeitur, búa sjálfsagt í einhverri snarbrattri fjallshlíð. Ég var með öndina í hálsinum og var að hugsa um að hringja á barnavernarnefnd en foreldrarnir pollrólegir. Þau lifðu þetta allt af sem betur fer. Við fengum okkur langan hádegismat þarna á einum bekknum og fylgdumst með fólki koma og fara.

Þessi eyja státar af fallegum vitum staðsettum á magnþrungum stöðum sem vert var að skoða. Til þess þurfti að fara til baka og keyra hinn veginn á eyjunni og upp upp upp hátt fjall. Þegar við vorum komin nánast upp á topp fór eitthvað ljós að blikka í mælaborðinu. Kristján bölvaði lágt "Það sýður á honum" stundi hann upp. Já en gaman, eins gott að við keyptum 10 lita plastbrúsan ætlaðan bensíni og fylltum hann af vatni!! En reyndist ekki nóg því miður. Einhver leiðinda slanga var morkin og götótt og það upp á heiði í hávaða roki. Kristján hvarf ofan í húddið og svo undir bílinn og reglubundið bárust bölv og ragn þarna undan bílnum. Ég sat inni í bíl í zen hugleiðslu, algerlega gagnslaus."Ég kemst ekki að þessu og hef ekki réttu verkfærin" sagði tómstundarbiflvélavirkinn milli samanbitinna tanna og strauk sér um ennið með olíusvörtu handarbaki. "Verðum bara að fylla kassan af vatni og vona að við komumst til byggða". "Ég er viss um að einhver bóndinn á réttu verkfærin og kannski er hann alveg til í að hjálpa þér í páskfríinu sínu" sagði ég hughreystandi við hetjuna og klappaði henni á öxlina. Mig minnti að ég hefði séð opið húdd á bíl og tvo hausa þar á kafi ofan í á leiðinni upp fjallið.

Litla byggðin í fjallshlíðinni færðist smán saman nær og og aðstæður til viðgerða skánuði með hverjum metranum.Það fyrsta sem við sáum var maður að kveikja í sinu í brekkunni við húsið sitt. Kristján stoppaði bílinn skrúfaði niður rúðuna og hóf ræðu sína á norsku. Maðurinn horfði á hann smá stund setti aðeins brýrnar og spurði hann svo hvort hann talaði ensku! Ég varð mjög móðguð fyrir Kristjáns hönd því mér finnst hann tala glimrandi sognisku uns ég komst að því að maðurinn var hollenskur. Hafði flutt hingað með fjölskyldu sína fyrir 6mán því hér var góða vinnu að fá og nánast eingöngu hvítt fólk! Hann vissi að þetta hljómaði mjög fordómafullt en það voru bara endalaus vandamál með innflytjendur og afkomendur þeirra í Hollandi. Hér var hægt að gleyma veskinu sínu og koma aftur viku seinna og finna það á nákvæmlega sama stað (reyndar hafði engin reynt að koma því til eigenda síns en það er annað mál). Börnin hans fengju að alast upp frjáls, gætu leikið sér úti, lært að veiða og hér væri náttúru fegurð og frelsi, ekki bara ljótt flatt Holland með allt of mörgum ekki Hollendingum. Hann reyndi eftir bestu getu að aðstoða okkur enda við snjóhvít en átti ekki réttu verkfærin.

Við héldum því aðeins áfram og þá sáum við mennina sem voru enn með höfuðin niðri í húddi og við tókum ýskrandi hægri beygju inn á hlað.

Þeir tóku við þesum óvæntu gestum með stóískri ró, hummuðu létt nokkrum sinnum til þess að byrja með og síðan hurfu þrjú höfuð ofan í húddið. Höfuðið á pabbanum kom fljótlega upp úr aftur enda ekki mikið pláss þarna ofan í húddi. Hann sagði mér frá því að í " rauða húsinu þarna frammi við brekkuna" byggju íslendingar, maðurinn rafvirkji og hann hafði farið til Íslands um daginn ásamt vinnuveitanda sínum til þess að reyna að lokka fleiri rafvirkja til Noregs og nú væru þrjár íslenskar fjölskyldur á leiðinni hingað. "Þessi kreppa hlýtur að vera mikil blóðtaka fyrir ísland, ekki gott að missa svona fólk úr landi" sagði hann samúðarfullur og hristi höfuðið. Talið barst eitthvað að landbúnaði því þessi maður hafði verið bóndi og m.a. haft kindur en allt hefði versnað eftir að þeir fundu olíuna! "þið skulið bara biðja til guðs að þið finnið ekki olíu við Ísland".

Já mörg eru nú umkvörtunarefnin. Hér var íbúi eins rikasta lands heims að kvarta sárum yfir ríkidómnum. Reyndar hef ég heyrt hér talað um fátæk sveitafélög og bændur sem berjast í bökkum og víst er svo að æðstráðendur liggja þungt á gullegginu sínu, lyfta annari rasskinninni upp öðru hverju til þess að tala við straumnum af nýju gulli sem klessist við það sem fyrir er. Vilja ekki valda "þenslu", Ætla reyndar að eyða smá til þess að kortleggja betur norðurhéruðin, og kannski laga verstu vegina og kannski skoða aðeins hina atvinnulausu á þessu ári!

Þeir fara öðruvísi að í Kuwait. þar fá íbúar sinn hlut í gróðanum mánaðarlega þannig að þeir þurfa ekki að vinna ef að þeir nenna því ekki og geta því setið og étið og eru orðin ein feitasta þjóð í heimi. Mætti kannski vera eitthvað millibil en það verða aldrei allir ánægðir með allt eða sammála um nokkurn hlut, sérstaklega ekki þegar peningar eru annars vegar.

Það var of erfitt að gera við bílinn þarna. Hann þurfti að komst upp á búkka og viti menn, drengurinn var einmitt að vinna hjá rafmagnsveitunni og það var bílalyfta í vinnunni hans og hann var alveg tilbúin til þess að koma með okkur til Målöy og opna verkstæðið fyrir okkur! Þeir unnu hörðum höndum þarna á verkstæðinu í dágóða stund en það gekk. Við reyndum að bjóða drengnum pening fyrir óþægindin en hann mátti ekki heyra á það minnst. Þá buðum við honum mynd eftir Kristán. Hann var til í það og vildi helst fá mynd af rafmagnsstaurum! já, sitt hvor er nú smekkur manna, hér er Kristján að bölva öllum rafmagnslínum og staurum sem eru fyrir honum í hinu fallega landslagi sem hann ætlar að mynda og svo ungur piltur sem sér varla nokkurt fegurra en teinrétta rafmagnsstaura með sverum rafmagnsvírum sem virka:

Kindness of af strangers heitir bók nokkur gefin út af Longly Planet og inniheldur ferðasögur um góðvilja ókunnugra. Bókin hafði nokkuð mikil áhrif á mig þvi góðmennskan var einmitt það sem við fengum svo oft að njóta í langa ferðalaginu okkar um stór Ameríkuna , What goes a round coms a round hugsaði ég með mér þegar við þökkuðum þessum unga pilti kærlega fyrir hjálpina, og ókum af stað nokkuð viss um að við kæmumst örugg á næturstað í þetta skiptið.

country: 

Comments

Submitted by billyteen (not verified) on

There may be noticeably a bundle to find out about this. I assume you made certain good points in options also.