Heija Norge

Heija Norge og tak för at ta imot alla Íslendingarna som nestan bortglömda slektninga


 Lent í Noregi með 22kg ferðatösku (geri aðrir betur fyrir 5. mánaðar dvöl í útlandi) og einn hjólakassa með hjóli (ásamt öllu þungu hlutunum sem komust ekki fyrir í töskunni). Smellti nokkuð löngum kossi á Kristján eftir að ég kom loks auga á hann veifandi úr fjarlægð í hrókasamræðum við kunningja fólk okkar sem reyndust hafa komið með sömu vél algerlega án minnar vitundar.


Skelltum hjólinu í geymslu (ásamt snyrtitöskunni minni en það uppgötvaðist ekki fyrr en inni á hóteli þegar draga átti fram öll fínu hrukkubanakremin sem snyrtifræðingurinn hún dóttirin gaukar að móður sinni um jól og afmæli). Blöðruðum svo mikið að við fórum einu sinni í vitlausa röð til þess að kaupa lestarmiða inn til Osló, 3svar sinnum í vitlausa lyftu og þrisvar á vitlausa lestarpalla þar sem við reyndum árangurslaust að komast inn í fluglestina öfugu megin einungis til þess að horfa á hana í forundran bruna í burtu. Það var komin timi til að það kæmist rétt skipan á þetta hjónaband og ég tók við fararstjórninni og Kristján við akstrinum en þó ekki fyrr en eftir algert klúður við að finna rétta strætóinn til þess að komast á hótelið.


oslo


það kom fljótlega í ljós hvers vegna við höfðum fengið svona ódýrt hótelherbergi í þessu rómantíska fyrrum "herragarði" í góða hverfinu í osló eftir að við höfðum burðast með töskurnar upp á hanabjálka og opnuðum herbergið sem hafði klárlega tilheyrt lægst settu þjónustustúlkunni á hátindi þessa húss en við Kristján erum svo sem ýmsu vön og ég var svo þreytt að ég bara datt niður á rúmið og sofnaði á leiðinni.


Eftir að hafa potað í lélegasta morgunverð "ever" á nokkru hóteli daginn eftir en drukkið viðunandi kaffi var lagt að stað í bæinn í mildu vorveðri sem lofaði sól fljótlega eftir hádegi.


Við stoppuðum við  kaffibrenneríet og fengum okkur tvöfaldan caffé latte í pappabolla enda bara búin að slá á morgunfráhvarfið. Sem betur fer hafa Norðmenn uppgötvað að það er til gott kaffi í heiminum, eitthvað sem þeir höfðu ekki gert þegar ég var hér síðast (reyndar fyrir rúmlega 15 árum og þá í Bergen) því þá var bara til vont og aðeins verra ríkiskaffi. Röltum með kaffið okkar niður að ráðhústorgi og settumst þar á bekki og horfðum á Oslóarbúa koma undan vetri með sínum heittelskuðu, börnum, hundi og/eða hjóli, brosandi, glaðir og huggulegir. Litlu ferjurnar voru að leggja að bryggju og sjórinn nánast spegilsléttur. Það var gott og afslappað andrúmsloft þarna og lítið sem minnti á hættulega stórborg eins og maður var farin að heyra um í fréttunum. Við sátum þarna dágóða stund en röltum svo af stað til þess að rekast á kunningja okkar hann Hilmar sem hafði fengið sömu hugmynd og við og sat á bekk stuttu frá. Eiginkonan hún Anna var á ráðstefnu áhugamanna um norrænar barnabókmenntir og hann var að bíða eftir að komast með kerlunum í hádegismat. Karlarnir fóru því miður að tala um Icesave og ég fékk strax tak í bakið og stressaðist öll upp. Nú vil ég bara fá að gleyma íslenskri pólitík í smá stund takk fyrir svona rétt á meðan ég er að ná mér almennilega.


Röltum niður að nýja bryggjuhverfinu þeirra sem virðist ætla að verða mjög vel heppnað. Stórglæsilegur, fjölbreyttur arkitektúr og skipulag sem býður upp á iðandi mannlíf á góðviðrisdögum. Hafnarhlutinn  er þéttriðin veitingarhúsum á neðri hæðum og þar var full setinn bekkurinn af rykugum sólgleraugum og pastellituðum stuttermabolum. Meðfram veitingarstöðunum liggur malbikaður vegur en þar við hliðina er breið trébryggja með tröppum niður að sjó sem hægt er að sitja á með nesti komi maður frá Íslandi og tímir ekki fyrir sitt litla líf inn á veitingarstaðina og möguleiki að horfa á bátafólkið græja bátana fyrir sumarsiglinguna. Þarna var smekkfullt af fólki og langar biðraðir við íssjoppurnar á bryggjunni. Við endann á hverfinu er nýja listasafn þeirra norsara að rísa á stöplum út í hafi og verður að sjálfstæðri listaeyju og væntanlega verða þarna fullt af galleríum og dýrum hönnunarverslunum sem verður endalaust gaman að rápa um og líta út eins og maður hafi alveg ráð á þessu öllu. Samspil sjávar, bygginga og fólks hefur lukkast sérlega vel hérna en þetta er ekkert fátækrahverfi en allir virðast boðnir velkomnir, háir jafnt sem lágir.Mikið vildi ég óska þess að skipulagsnefnd Hafnarfjarðarbæjar hefði farið í námsferð hingað og tileinkað sér þó ekki nema agnarbrot af því sem hér er að gerast áður en þeir samþykktu þann verulega óspennandi kornflexpakka arkitektúr sem einkennir nýja bryggjuhverfið þeirra í Hafnarfirði. Það er dýrt að samþykkja svona mistök því það er vonlaust að losa sig við þau aftur. Ég hélt kannski að þeir hefðu lært eitthvað af klúðrinu í kring um verslunarmiðstöðina Fjörðinn en því miður, smekkleysan er enn algerlega ráðandi.


Náði að rölta eftir strandlengjunni yfir að óperuhúsinu þeirra sem lítur úr eins og risaskip sem hefur rétt í þessu strandað á ísjaka (glerlistaverkið í sjónum!) og framhlutinn er að síga niður í ómælisdjúp. Minnir óþyrmilega á Titanik en hið 45gráðu?(mat það þannig á uppgöngunni miðað við bruna í lærum)  hallandi dekk þjónar sem fjallgönguæfing fyrir almenning sem bröltir upp að "brú" (eða gefst bara upp á leiðinni tekur fram nestið og fer í sólbað, en ekki ég, ó neiii). Frá brúnni er gott útsýni yfir húsþökin á miðbæ Osló og yfir höfnina á nágrannaeyjur.


Var orðin dauðuppgefin enda líkamlegt verkjaúthald lítið og við fórum í búðina og keyptum okkur góðgæti í kvöldmat sem við borðuðum upp á hóteli.


Sunnudagurinn fór að mestu fram í "lacy afternoon fíling" röltum smá en sátum svo að mestu á útiveitingarstað og horfðum á fólkið rölta framhjá og ég verð að hætta að reikna yfir í íslenskar krónur eigi ég ekki að fá panikast og ég datt niður á það snjallráð að við myndum bara eyða peningunum hans kristjáns enda fær hann laun í norskum (algerlega með sparnaðarráð heimilanna á hreinu).


Fínasta helgi í Osló en hún fer nú reyndar ekki efst á lista yfir mest spennandi borgir í Evrópu en nýja bryggjuhverfið þeirra kemur reyndar til með að færa hana töluvert ofar á listann en andrúmsloftið  hér er gott, afslappað og heimilislegt.


 

country: