Hvíta ströndin við Bremanger.

Þorpið dreifði úr sér yfir láglendið eins og nafnið gaf til kynna, og húsin varla í kallfæri  hvert frá öðru. Íbúarnir sjálfsagt með blandaðan búskap í gamla daga. Nokkur húsdýr, tún og svo sjóinn. Sjórinn er enn mikilvægur með sjávarútvegsfyrirtækinu við höfnina. Bærinn nægjanlega stór fyrir lítinn miðbæ en hann því miður án sjarma. Keyrðum eftir aðalgötunni allt til enda þar til við komum að bílastæði, pikknikborðum og salernishúsi með skilti sem tilkynnti að það væri bannað að campa. Helvítis þjóðverjarnir sem tíma engu sagði einhver gamli Norsarinn sem var ekki enn búin að fyrirgefa þeim hernámið. Bráðum verður það "helvítis Íslendingarnir í litlum Volkswagen húsbíl sem vilja ekki borga icesave"!

Og þarna var hún, snjóhvíta sandströndin með hinum fullkomna fíngerða kristalhvíta sandi sem lagast mjúklega að fætinum og borast á milli tánna, örugglega kílómeter að lengd og fleiri metra breið. Mjóar raðir lítilla kletta út í sjó líkt og á Breiðafirðinum og grunnur sjór á milli þeirra með hvítum sandi langt út á haf. Fljótt að hitna á sumrin og því draumastaður fyrir fjölskyldur, börnin að búa til sandkastala, foreldrarnir að njóta sólarinnar og volgur sjór að synda í. Við röltum fram og til baka á ströndinni. Ég á tásunum með brett upp á buxur, sullandi rétt upp á ökla í ísköldum sjónum enda ennþá bara april og hrollur upp eftir öllum líkamanum en Kristján fullkomlega staðfastur í sandölum. Ströndin var hrein og fín með einstaka þarablöðum og við vorum ekki þau einu sem nýttum þennan fína sólardag á ströndinni. 

 the beach of Bremanger in Norway

Við furðuðum okkur á því að það virtist engin nýta þessa strönd með tilliti til ferðamanna á sumrin, einkum og sér í lagi vegna þess að hvítar sandstrendur á vesturströnd Noregs eru ekki á hverju strái. það voru reyndar hægt að leigja lítil hús (hyttur) en ekki á ströndinni og við sáum hvergi tjaldstæði eða aðstöðu fyrir ferðabíla.

Þarna var stórt hús í niðurníslu með stóru túni á besta stað við ströndina og sáum strax viðskiptatækifæri. Þetta er ferðaleikurinn okkar Kristjáns, að hugsa upp viðskiptatækifæri á þeim stöðum sem við ferðumst um og ímynda okkur að við búum þar. Ég held að það sé ein ástæða þess að við erum ekki enn orðin moldrík að við bara ímyndum okkur og ferðumst svo yfir á næsta stað.

Við ákváðum að gista þarna á bílastæðinu þrátt fyrir skiltið því við efuðumst um að einhverjir færu að skipta sér af þessum litla bíl í lok apríl, því húsbílar eru varla farnir á stjá. Við settumst við eitt borðið og tókum fram nýja grillið og fylgdumst með eldri  manni róa inn vikina hjá okkur, festa bátinn í vari, brölta upp steinana í fjörunni og ganga í áttina til okkar. Hann settist á næsta bekk, tók fram handrúllaða sígarettu án filters og kveikti í, saug hana vel og lengi djúpt ofan í lungu og blés hægt frá sér og hóf að spjalla. Hann spurði að sjálfsögðu hvaðan við værum og var nokkuð ánægður með að við værum íslensk, hafði sjálfur verið að veiða við Íslandsstrendur. Hafði einhvern díalekt sem erfitt var að skilja, ég varla 50% en Kristján þó 85% en komumst þó fljótt að því hvers vegna ekkert væri gert fyrir ferðamenn hér á ströndinni. Hann átti nefinlegan prívat og persónulega skerin hér fyrir utan og fór í þrjóskulegan baklás þegar bæjarstjórnin lagði bílastæðin og byggði salernin án þess að spyrja kóng eða prest (þ.e. hann sjálfan). Þar við sat og klósettin því lokuð.

Þarna sat hann rúnum ristur af stórveðrum og söltum sjó,  rámur af óhóflegum sígarettureykingum og kannski viskíglösum hér og þar og alls staðar, réri aðeins fram í gráðið, hokin með annan olnbogann á hnénu og í eilífðarstríði við bæjarstjórnina í þessum litla bæ. Þeir skulu sko fá að borga andskotarnir vilji þeir eitthvað með þetta hafa. En það verður víst ekki í bráð því bærinn er víst tæknilega gjaldþrota (hvað sem það nú þýðir) því það eru til fleiri asnar en Íslenskir þegar á að græða feitt á gráa markaðnum. Strandgestir fá því áfram að pissa bak við kletta um ókomna framtíð hér á hvítasandbeiðunni miklu við Bremanger þrátt fyrir fína klósetthúsið.

Sunset in Bremanger Norway

Sjóarinn átti stóra drauma um smábátahöfn og  kannski var hann byrjaður á framkvæmdum því það var óskiljanlega tilgangslaus lítil brú út í eitt skerið við hliðina á klósetthúsinu sem varla rúmaði einn bíl og þaðan endaði vegurinn beint niður í sjó?

Húsið sem við höfðum tekið eftir fyrr um daginn reyndist elsta húsið í bænum og þar ólst mamma hans upp. Frændinn var eitthvað byrjaður að flikka upp á það.  Búið að laga aðeins þakið svo það hryndi ekki. Við fengum góðfúslegt leyfi til þess að gista þarna á bílastæðinu en hann ráðlagi okkur að fara yfir brúnna og út í sker því það væri föstudagur og ungmenni í nágrenninu notuðu þennan stað til þess að hittast og djamma. 

Kvöldið var dásamlegt, milt og fallegt og við stungum úr rauðvínsflösku sem ég hafði keypt í tollinum heima með norsku rollulærisneiðunum og virtum fyrir okkur fólkið sem kom til þess að njóta strandarinnar og biðum eftir sólarlaginu sem týndist bak við fjallið. Þegar rökkva tók fórum við að ráðum sjóarans og færðum bílinn. Ég steinsvaf en vaknaði þó um miðja nótt til þess að pissa (vel þess virði fyrir þetta rauðvín) Ég sá bílljós frá bílastæðinu og lágværar raddir en engin hávaði. Tillitsamt ungt fólk hér í sveitinni.

 

 

country: 

Comments

Submitted by billyteen (not verified) on

You made some first rate points there. I regarded on the web for the difficulty and located most individuals will go along with along with your website.