Páskar FRÍ og AFTUR FRÍ, lof og prís sé guði!!!

Lokaður milli hárra fjalla í allan vetur (mínus jólin) getur gert hvern mann létt klostrofobiskan, jafnvel þótt hann hafi verið alin upp við svipaðar aðstæður  og óskaði Kristján því nokkuð sterklega eftir því að fara út á strönd um páskana. Stara á óendanleikan í sjóndeildarhringnum, finna fyrir ólgandi flatneskju úthafsins og hvíla augun í smá stund á fjöllum og trjám.


Mér var svo sem létt sama hvert við færum, ferðalagið sjálft í hyppó litla var alveg nóg fyrir mig. Því var haldið af stað út fjörðinn á miðvikudagseftirmiðdegi fyrir páska , öll þau vetrarföt sem ég hafði tekið með mér komin upp í efri hillu, pínkulítið túrhestakort  í framsætinu ásamt nýjasta leikfanginu, iphoninum með innbyggðan gps og guð má vita hvað annað!!!,  með einhvern óljósan áfangastað í huga.Noregur er martröð allra samgönguskipulagsfræðinga því hér eru endalaus snarbrött fjöll beint ofan í sjó, gerist varla vogskornara með óteljandi eyjum og jafnvel skerjum í byggð eftir allri vesturströndinni og annesja hér og þar. Ferjur eru því á hverju strái ásamt endalausum, mislöngum göngum  og örmjóum, kræklóttum vegum með jafnörmjóum útskotum til þess að geta mætt öðrum bílum og snarbratt niður í sjó en brýrnar eru ennþá að mestu á teikniborðinu.


Við komumst því ekki marga kílómetra áður en fyrsta ferjan færði okkur yfir á Balestrand, fallegt norskt þorp en lítll sem engin kjarni en góður veitingarstaður "siderhúsið" (veit það bara vegna þess að aðventufylleríið í vinnunni hans kristjáns var einmitt haldið þar) og fallegt gamalt hótel.Fyrsta stoppið var á þessum fallega stað Nystad sem þið sjáið á myndinni. Þarna var fyrirtæki við sjóinn sem smíðar borð og bekki úr óhefluðum við og allt geirneglt eins í gamla daga. Þarna seitlaði lækur niður hæðina út í sjó. búið að útbúa pikknik og baðsvæði fyrir fjölskyldur og svæði fyrir varðeld, leit dálítið út eins og leikvöllur glaðra skáta ef ekki væri fyrir það að stranglega var bannað að tjalda. Úti fyrir baðströndinni í sundfjarlægð fyrir þokkalega synda var litla eyjan Kvamsöy og þar tróndi þessi líka stóra kirkja nánast stök ef ekki væri fyrir nokkra kofa (Hef grun um að húsin hafi verið hinum megin eyjarinnar úr sjónlínu því það er frekar erfitt að synda yfir í messu!!) og 2 minni eyjur við endann nær landi. 


Fullkomin næturstaður, með fínu opnu salerni, ef ekki væri fyrir risastórt varúðarskildi um rafmagnslínu þvert yfir sjóinn. Dáldið niðurbrot á rómantíkinni.


Kristján var hins vegar komin með smá ferðaóþol, lítið ferðast nema á milli Slinde og Leikangers heila 6km. og fannst við hafa farið heldur stutt. Við ókum því lengra eftir firðinum endalausa. 


Sognefjörðurinn er tignarlegur, því er ekki að neita, einkum og sér i lagi þegar hann breikkar og útsýnið víkkar. Hann er nokkurn skonar móðurfjörður með minni fjörðum sem ganga út frá honum. Við ókum upp úr honum miðjun yfir í bæinn Höyanger, óspennandi iðnaðarbær með óspennandi miðbæjarkjarna.


Nú fóru fjöllin að minnka aðeins. Við fórum í gegn um þröngan dal með iðandi á og litlum vötnum sem endaði með því að verða að smáfirði og sjó og tími komin að líta í kring um sig að næturstað en það leit ekki vel út því allt flatlendi var upptekið af húsum og það er frekar dónalegt að leggja í innkeyrslunni hjá fólki.


Degi var tekið að halla og birtu að dvína og ég orðin létt stressuð því þessi blessaði dalur breikkaði ekkert og áfram lítið flatlendi. Þá loksins keyrðum við fram hjá bryggju og stóru húsi sem virtist tómt og við snérum við og ókum niður á þessa litlu bryggju og lögðum þar í skjól við beitningarskúrinn í Indre Björvika. Húsið reyndist tómt og sjálfsagt í eigu einhvers fyrirtækis sem var í páskafríi. Þetta var reyndar skrítin staður því það var alltaf eins og einhver væri að ganga fram hjá bílnum, eitthvert samspil af glampa frá sjónum og rúðunnar sem gerði þetta að verkum og okkur Kristjáni brá alltaf reglubundið og kíktum til skiptis út um gluggann, en þar var engin.


Steiktum okkur pulsur og fórum að sofa. Ég hríðskalf af kulda alla nóttina enda er hitakerfið mitt laglega farið úr skorðum þessa daganna og ég skildi ekkert í mér að hafa ekki tekið mínus 20 gráður dúnpokann minn með. Sjálfsagt vegna þess að ég er búin að vera að drepast úr hita í allan vetur en þarna var mikill raki og hann smýgur inn í gegnum merg og bein, jafnvel þótt maður sé komin í öll vetrarfötin sem tekin voru með, sumarsvefnpokinn yfir og þykku ullarteppi vafið utan um allt þannig að maður er eins og lítil púpa með nefið uppúr og húfu  á hausnum.


voooonandi hitnar!!!


 


 

country: