Taming the tiger

Sælir kæru félagar, vinir, ættingjar og aðrir þeir er slysast inn á þetta blogg mitt. 

Ég hef undanfarið verið að sanka að mér fésbókarvinun til þess að missa ekki samband við þá er ég þekki. Það hafa margir skrifað mér og spurt hvernig ég hafi það og hvernig gangi. Þess vegna hef ég nú ákveðið að lýsa því nákvæmlega hvernig mér líður, ekki síst fyrir mig sjálfa því þá get ég litið til baka síðar og metið breytingar.

Fyrir ári síðan fór ég í nokkuð stóra aðgerð og 2. vikum síðar fékk ég lungnblóðrek í bæði lungu það mikið að ég þurfti að leggjast aftur inn á sjúkrahús. Þessu fylgdi mikill sársauki þannig að ég var í verkjalyfja rússi í 3-4 daga. Ég var nokkuð fljót að jafna mig en um mánaðarmótin júli- águst var ég þreytt í mjóbakinu. Ástand sem ég þekki og kann að bregðast við. Fór síðan að vinna um miðjan ágúst. Atburðir í kring um það urðu til þess að ég fékk "þursabit" í brjóstkassann. Eitthvað sem ég ætlaði að meðhöndla eins og venjulegt "þursabit" Rúmlega og lyfjakoktell til þess að byrja með, ásamt bökstrum og æfingum. Vandin var hins vegar sá að þetta fór ekki og við bættust aftur verkir í mjóbaki. Sjúkraþjálfarinn sagði að bakið á mér væri eins og stál, allir vöðvar fastir í spennu.

"Risastórar krumlur" voru að kreista saman á mér brjóstkassan þannig að ég gat varla andað. Verstu verkirnir voru undir höndum og niður úr, leiddi fram á brjóstkassan og aftur á bak. Ég gat ekki unnið fullt starf og fór því í hlutaveikind þar sem ég vann 4 tíma á dag en ég gat það eiginlega ekki heldur. Vaknaði kannski við þokkaleg líðan en var komin með óþolandi verki í lok vinnudags og gat lítið gert eftir það annað en taka verkjalyf, teygja og liggja fyrir. Það var eins og líkaminn gæti ekki haldið mér uppi og væri að brotna í þúsund mola. Reyndi að ganga aðeins úti en það var erfitt því mér var yfirleitt refsað með enn verri verkjum á eftir. 

Fór í Hveragerði í febrúar og ætlaði að "massa þetta". Þar neyddist ég hins vegar að horfast í augu við það að ég væri komin með langvinna verki og yrði að taka öðruvísi á málum og ljóst að ég þyrfti að hætta að vinna um stundarsakir.

landmannalaugar

Nú er ég ekki stöðugt með þessa fáránlega sáru verki sem lömuðu mig algerlega en ýmislegt, sem lúrt hafði í felum, kom fram þegar verstu verkirnir létu undan síga.

Þegar ég vakna á morgnanna er eins og ég hafi verið að byrja pallaleikfimi fyrir íþróttagorma daginn áður og hafi tekið heldur mikið á því. Harðsperrur í öllum vöðvum og það brakar í öllum liðum eins og liðvökvinn hafi lekið burt. Flest öll liðbönd eru aum og ég er með beinhimnubólgu hér og þar, þó aðalega í rifjunum og sköflungunum. Mér líður því eins og áttræðu gamalmenni þegar ég skreiðist fram úr rúmi en liðkast þó er líða tekur á daginn. Þessir grunnverkir eru alltaf til staðar og fara aldrei. Ef ég ýti einhvers staðar á vöðvana koma alltaf fram sárir verkir en sumir "trygger" punkrar eru sárari en aðrir og sumri liðir eru verri en aðrir. Hægri mjöðmin hefur t.d. verið að stríða mér og fingurliðir eru heldur aumir þannig að fingurnir láta ekki alveg að stjórn sem gerið það að verkum að ég missi hluti úr höndunum á mér og ætti því helst að forðast allt uppvask! Þetta er kannski líkt því að vera alltaf með slæma flensu.

Úthaldið er verulega minnkað og vöðvakraftur líka. Ég verð þreytt við litla áreynslu miðað við þol mitt áður og verð að hvíla mig reglubundið. 

Við þetta bætist auka verkir í rifjunum og fastur bólguverkjahnúður undir hægra herðablaði og það vinstra er mjög aumt. Verstu verkirnir eru eftir sem áður yfir brjóstkassan og brjóstbakið. Ég get hvorki staðið eða setið lengi í einu því þá fæ ég svo sára verki í rifin undir höndunum. Það fer því ansi langur tími í lárétta stöðu.

Trygger punkturinn yfir einu rifinu getur orðið svo sár að þegar ég snerti hann þá er eins og rifið sé brotið.

Reyni ég of mikið á mig (sem er nánast engin áreynsla) fæ ég þennan þunga verk sem liggur eins og slæða undir brjóstkassanum. Hann á sér engan sérstaka upphafs stað, tekur mig bara í gíslingu. Þegar hann er sem verstur veldur hann flökurleika og miklum þyngslum eins og hann ætli að kæfa mig. Þá er ekkert annað að gera en leggjast fyrir með kalda bakstra og hreyfa sig sem minnst .

Stundum er eins og það liggi sársaukahimna yfir allan líkamann og ég sjálf er föst inni í einhverri harðri púpu og það er mjög skrítin tilfinning að fara út að ganga. Það er erfitt að útskýra þessa verk, þeir eru einhvern vegin djúpir og viðvarandi án upphafspunkts eða endapunkts og valda hálfgerðri innilokunartilfinningu og ég get fundið fyrir andnauð.

Skyndiverkir hafa upphafspunkt með afgerandi sársauka líkt og elding, langvarandi verkir eru eins og seigfljótandi hraun.

Þeir verkir sem ég get staðsett hlaupa til og frá og geta verið á misjöfnum stað frá degi til dags.

Ýmislegt annað en verkir hefur bæst við s.s. mikil svimi þegar ég stend of snöggt upp (sem myndi ekki hafa mælst snöggt á fyrri lífs mælikvarða) og augnþurrkur sem var svo slæmur hér um daginn eftir sólina (þrátt fyrir sólgleraugun og derhúfuna) að ég gat varla haft augun opin.

Svo fæ ég hitaköst sem eru náttúrulega afleiðingar af aðgerðinni en undanfarið hef ég fengið skrýtin kuldaköst. Þá verður mér hrollkallt inn að beini og skelf eða fæ gæsahúð, ekki ólíkt því að fá skyndilega háan hita.

Þsð er eitthvað undarlegt að gerast með hægra eyra. Það er eins og það sé vökvi eða eitthvað laust sem brakar í  þegar ég þrýsti á skinnið fyrir neðan það.

Einna verst er þegar ég fæ "skyndiþreytukast" og stend þá varla undir sjálfri mér, svimar og verð algerlega magnvana eins og sprungin blaðra.

 

Færi ég með þessa sögu mína til gigtarlæknis núna þá myndi hann sjálfsagt kveða upp dóm sinn hratt og öruggulega "þú ert með vefjagigt". Kannski myndi vefjast fyrir honum hversu sagan er stutt því vefjagigt þróast yfirleitt á lengri tíma en þegar ég fer að hugsa til baka þá voru ýmis einkenni til staðar fyrir þessi áföll.

Aukin stirðleiki, minnkaður vöðvakraftur, óeðlilega mikil þreyta, blóðsykursfall, klaufska (missa hluti úr höndunum), augnþurrkur og orðarugl. Ég held að það hafi verið ýmsir atburðir sem urðu þess valdandi að þessi akútfarsi braust út jafn hrikalegur og hann hefur reynst

Ég hef hins vegar ekkert með þessa geiningu að gera og þarf ekki á henni að halda (nema ef ég næ ekki að vinna og verð að eiga í samskiptum við tryggingarstofnun) því það er ekki til nein læknisfræðileg meðferð við þessum heilkennum. Hefðbundin gigtarlyf virka ekki. Sumir reyna að nota viss  geðlyf í smáum skömmtum því hliðarverkun þeirra getur dregið úr sársaukaboðum ef maður er heppinn.

Það eru reyndar töluverðir fordómar gegn þessari greiningu og allir kannast við "æ þetta er bara ruslgreining" og þessar konur eru bara meira og minna móðursjúkar.Ég held að ég sé ein minnst móðursjúka konan sem ég þekki. Þetta er hins vega eitt af þessum heilkennum í læknisfræðinni sem kannski fáir hafa áhuga á enda erfitt við að eiga.

Ég hef því bara verið í góðu sambandi við heimilislækninn minn sem er hinn vænti maður og það er búið að rannsaka allt til þess að útiloka alvarleg veikindi. Ég þjáist sem sagt ekki af neinum alvarlegum líkamlegum sjúkdómi og þessi ósköp skaða ekki líkamann sjálfan en það er annað mál með sálina.

Það er ljóst af þessari lýsingu að þetta er eitthvað sem getur gert hvern mann brjálaðan og getur valdið skaða á sálinni, einkum hjá aktífu fólki sem þarf að gjörbreyta öllu sínu lífi og endurskoða allt. Mikilvægast er að láta ekki deigan síga og finna sínar leiðir til þess að höndla þetta ástand.

Hefðbundin verkjalyf virka illa á þessa verki, ég hef þó tekið Nobligan öðru hverju en minna nú eftir að ég hætti að vinna og nota frekar hvíld og kalda bakstra.

Heilsustofnun Hveragerðis bauð upp á námskeið í Gjörhyggli eða mindfullness. Innihald þess er að kenna fólki að staldra við og lifa í núinu. Velta sér ekki upp úr fortíðinni, einblína ekki á framtíðina heldur dvelja hér og nú. Horfa upp á nýtt og uppgvöta það sem er fyrir framan tærnar og kveikja á skynfærunum. Endurmeta öll gildi. Hvað er það sem í raun skiptir máli. 

Við æfðum m.a. hugleiðslu þ.e.a.s. sitja í stól með hendur í skauti, beinni í baki fjarri stólsetinu og reyndum að hugsa ekki neitt og það er svo sannarlega ekki auðvelt!Í mínu tilfelli er einungis hægt að nota heilan og vonast til að geta sannfært hann um að hætta með þessa óþarfa verki, ég þurfi ekki á þeim að halda. 

í kjölfarið á námskeiðinu keypti ég bókina, Mátturinn í Núinu eftir Echart Tolle, og er hún mjög holl lesning öllu fólki.

 

Ég hef haldið áfram með þessa hugleiðslu og hún hjálpar mér mjög mikið því þetta er ekki auðvelt og stundum sæka að mér daprar hugsanir. Þá sest ég niður, hugleiði og sendi þessar hugsanir í burtu þvi ég er ekki hugsanir mínar, ég er eitthvað miklu meira og má ekki leifa huganum að velta sér upp úr neikvæðum hlutum. Hugleiðslan hjálpar einnig til þess að ná stjórn á verknum.

Það er mikilvægt að viðhalda hreyfigetu og þær æfingar sem henta mér best er Qi Gong. Æfagamalt kínverskt æfingarkerfi með hægum hreyfingum sem bæði styrkja og liðka og maður kemst í sérstakt samband við líkamann. Ég keypti DVG í gegn um Amazon og geri þessar æfingar á hverjum degi og enda í hugleiðslu, helst úti við sjóinn ef veður leyfir.

Ég er líka með hefðbundnara æfingarprógram frá sjúkraþjálfara sem ég hef aðlagað að mínum þörfum og svo keypti ég stóran bolta til þess að gera pilates æfingar.

Fátt er skemmtilegra en að hjóla úti í náttúrunni og ég hjóla á hverjum degi til Kristjáns í vinnunna í Leikanger og það tekur mig rúman hálftíma, stundum fer ég lengra og nú reyni ég einnig að ganga upp í fjall því þar er góður göngustígur inn í skóginn með frábæru útsýni yfir fjörðinn.

Til þess að halda rithma hef ég búið mér til stundarskrá sem inniheldur hreyfingu, hvíld og hugleiðslu í réttu hlutfalli og nú held ég svei mér þá að ég sé að verða sérfræðingur í norrænum krimmum, bæði í bókmenntum og kvikmyndum  því ég uppgvötvaði dásemdir bókasafna í þessu hvíldarstússi. Ég gat farið í Norræna bókasafnið, tekið eins mikið af norrænum myndum og ég vildi án þess að greiða neitt nema árgjaldið og fékk að hafa þær í viku. Ég er því orðin nokkuð góð í norræum tungumálum (fyrir utan finnsku sem er náttúrulega ekkert norrænt mál).

Eitt gott hefur þó komið úr úr þessu því ég er farin að snúa mér aftur að listinni og ef ég á erfitt með að snúa til baka að hjúkruninni þá á ég a.m.k. hana. (Sjá tækifæri ekki hindranir eins og vínkona mín hún Jóhanna Steingríms. segir)

Núna er ég að æfa mig í að teikna, mála og búa til myndskreytingar í frábæru forriti í tölvunni og ég mæli hiklaust með þessu sem tómstundariðju því að er svo gaman að sjá eitthvað birtast á skjánum! Myndirnar á síðunni eru fyrstu tilraunir mínar í þessu forriti og vonandi get ég myndskreitt bloggið í framtíðinni.

Þegar ég verð búin að æfa mig og rifja upp þá verða það alvörulitir og alvörupenslar. Ég þarf hins vegar að passa mig að standa upp reglulega og teygja svo ég verði ekki að drepast á kvöldin en það er eitthvað sem stundum gleymist þegar sköpunargleðin hertekur. Ég er að verða verri en Kristján sem þó er alltaf með hausinn ofan í tölvunni.

Ég reyni að borða hollan og góðan mat og taka lýsi og vítamín. Allir sem þekkja mig vita hversu mikill sælkeri ég er og nú hef ég ákveðið að hunang sé hollt og framleiði nú í grið og erg alls kyns "hollustunammi" (það er gott að geta tekið svona ákvarðanir).

Í Norskum fjölmiðlum nú um daginn var sagt frá nýrri rannsókn um áhrif kaffis á brjóstakrabbamein og niðurstöður voru sláandi.  Fimm bollar af kaffi á dag og þá minnkuðu líkurnar á brjóstakrabbameini um 50%! Þessi rannsókn var birt í einhverju virtu krabbameinsblaði í Englandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég varð glöð og hef í kjölfarið snardegið úr tedrykku.

Framtiðarplanið er frekar óljóst. ´Eg vonaðist til að geta unnið hlutavinnu hér í Noregi og sótti því um Norskt Hjúkrunarleifi. Mér var farið að lengja eftir leifinu og skrifaði þeim póst en þeir fengu aldrei neina pappíra í hendurnar!!!

Ég varð því að senda alla pappíra aftur og er ekki enn komin með leifi. Ekki að það skipti svo miklu máli því ég treysti mér ekki til þess að fara að vinna strax en vonandi næ ég því eitthvað í sumar. Ég ætla ekki að ráða mig neins staðar fyrirfram og þurfa svo að hætta við.

Þetta er ekki alltaf dans á rósum því ég er alltaf með óþægindi jafnvel þótt að ég liggi grafkjurr, einu skiptin sem ég slepp er þegar ég sef og þegar ég næ góðri hugleiðslu. Sem betur fer hef ég alltaf átt gott með svefn og þótt ég vakni nokkrum sinnum á nóttu þá sofna ég strax aftur og það koma jafnvel nætur þar sem ég sef samfellt.

Andlega hliðin er ótrúlega góð miðað við allt og allt, kannski vegna þess að ég hafði áður tileinkað mér það að lifa í núinu og vera forvitin og uppgvötva og hafa áhuga á öllu mögulegu. Ég held að listamenn séu dálítð svona típur a.m.k. sannir listamenn. Ég reyni að velta mér ekki upp úr sársaukanum. Hann er bara þarna eins og óboðin gestur sem veit ekki sinn vitjunartíma en stundum verður maður örvæntingarfullur þegar hann er sem verstur og þá tek ég bara lyf og reyni að sofna og vakna yfirleitt betri. 

Ef ég er döpur þá er bara að setja Barry White á fóninn og dansa um alla 40 fermetrana. Það er ómögulegt að vera í vondu skapi undir þessari ómótstæðilegu rödd "never ever gona give you upp, baby baby you are my everthing"

Vissulega hefur þetta haft áhrif á félagslega getu mína en ég hef reynt af fremsta megni að festast ekki heima því stundum eru það átök að koma sér út, séstaklega ef manni er refsað fyrir það með meiri verkjum.

Mikilvægasta markmiðið þessa dagana er að týna "Mér" ekki í þessum sársaukalíkama og reyna mitt allra besta til þess að ná betri heilsu sem auðveldara er að lifa með. Sjálfsagt næ ég ekki fyrri líkamlegri getu og kannski eru löng gönguferðalög úr sögunni en ég reyni að leiða ekkert hugan að því að sinni, það kemur bara í ljós.

 

Ég hlakka til þess að fylgjast með ykkur öllum á fésbókinni og væri mjög glöð að fá smá línu öðru hverju.

Kveðja að sinni hér fá Noregi

 

Ps: nú er hægt að skrá sig og setja inn athugasemdir. Við vonum að það verði hægt áfram og ekki verði allt fullt af kæfu og rugli svo við þurfum að loka aftur.

 

 

Travel: 
country: 

Comments

Submitted by Dalla on

Ég fékk svo lykilorðið sent eftir smá bið. Gangi þér vel á batavegi Guðný, bið að heilsa frænda, vildi ég sagt hafa.