Önnur veikindi Töru í El Salvador.

Önnur veikindi Töru í El Salvador.

Það á ekki af hundkvikindinu okkar að ganga. Í desember varð hún illilega veik, nánast við dauðans dyr og sú svæsna sýking sem hún fékk þá, og gekk sjálfsagt með í langan tíma, eyddi rauðu blóðkornunum þannig að hún varð verulega blóðlaus og slöpp. Hún fékk meðferð við þessu öllu, jafnaði sig vel, var orðin glöð og kát og skokkaði á eftir okkur eins og unglingur.

Tara feeling hot
Tara að farast úr hita.

Fyrir nokkrum dögum var hún aftur með stíflað nef og hor, hnerraði hressilega og átti erfitt með að anda í gegn um nefið. Ég hafði áhyggjur af því að gamla sýkingin hefði tekið sig upp. Hugsanlega hefði bara tekist að veikla kvikindin sem angruðu hana en ekki drepa. Að sjálfsögðu vorum við stödd í litlu þorpi og hundadýralæknar ekki á hverju strái. Ég ákvað að bíða og sjá til í tvo til þrjá daga og athuga hvort hún myndi sjálf vinna bug á þessu en það gekk ekki eftir. Því dróg ég fram úr meðalaskáp Benza, sýklalyf sem var ætlað okkur Kristjáni, skyldum við fá öndunarfærasýkingu í útlöndum, og gaf henni.
Hún jafnaði sig nánast strax á nefstýflunni og þá var bara spurningin hversu lengi hún þyrfti að vera á sýklalyfjum?

Tveim dögum síðar vaknaði ég við fagran fuglasöng hérna á útsýnispallinum okkar við vatnið í Suchitoto og einhvern undarlegan hávaða í Töru eins og hún væri að anda þungt í gegn um nefið og blása einhverju út.
Ég sá ekkert sérstakt athugavert við hana í fljótu bragði en tók svo eftir að það voru blóðblettir á koddanum hennar (hún hertók lítinn púða og notar hann sem kodda á nóttunn þegar hún skriður upp í sæti eftir að við erum sofnuð). Þetta var skrýtið þvi hún átti ekki að vera byrjuð á lóðeríi. Síðan tók ég eftir blóðlifru á neðri eldhússkáp, og þá fyrst vaknaði ég almennilega og fór að skoða Töru nánar og tók eftir blóðlifrum í annarri nösinni. Þetta virtist ekki mikið blóð til þess að byrja með en ég hafði af þessu töluverðar áhyggjur og vildi fara með hana til næsta dýralæknis eins hratt og unnt var. Benzi var hins vegar bilaður, gat á vatnskassanum og kristján nýbúin að tæma allan vökva af honum og var að gera sig kláran í að blanda einhvern sérstaka kíttidrullu og kítta í því það eru engir logsuðu karlar í Suchitoto.
Fljótlega fór að blæða meira og ég vissi að það væri að blæða eitthvað ofan í maga því þegar hún fór að sleika á sér lappirnar þá urðu þær blóðlitaðar frá blóðinu á tungunni.

Nú voru góð ráð dýr og eins gott að láta hendur standa fram úr ermun. Tara er meðalstór hundur um 25 kg. og því ekki með mikið blóðmagn í skrokknum og þar að auki blóðlítil frá fyrri veikindum.
Við vorum stödd á lítilli hæð á landareign með frábært útsýni yfir vatnið og rétt fyrir neðan okkur voru sundlaugar og lítill veitingarstaður. Mjög vingjarnlegir eigendur einhvers staðar á milli 50 og 60 ára og við komumst að því síðar að maðurinn hafði verið bæjarstjóri í bænum í 12 ár en hætti fyrir tveimur árum og opnaði þá þennan stað.

Tara sick

Tara með vökva í æð.

Ég hljóp í övæntingu niður að veitingarstað og það voru þegar komnir tveir gestir sem sátu og biðu eftir afgreiðslu. Ég baðaði út höndum og bað eigandan um að hringja á leigubíl. Maður þessi er ÁKAFLEGA rólegur, það rennur varla í honum blóðið og hann er eini maðurinn hér í El Salvador sem við skiljum tiltölulega vel því hann talar svo hægt og skýrt. Hann horfði á mig furðu lostinn og sagði svo að það væru engir leigubílar í Suchitoto en ég gæti tekið strætó!
Ég fór næstum því að skæla, sá mig ekki alveg bíða eftir strætó í hálftíma á meðan hundinum blæddi út. Hann spurði hvers vegna ég þyrfti leigubíl og ég sagði honum á minni bjöguðu spönsku og töluverðum leikrænum tjáningum að hundinum mínum væri að blæða og ég þyrfti að koma henni STRAX til dýralæknis.
Eiginkonan var ekki mætt í vinnuna og því voru það bara hann og unga dóttirin að vinna. Hann horfði á viðskiptavinina, síðan svolítið efins á dótturina og síðan aftur á viðskiptavinina en tók síðan ákvörðun, gaf henni nokkuð snögg fyrirmæli og sagði svo við mig að hann skildi keyra okkur upp eftir til dýralæknisins.
Litla fjölskyldan skellti sér upp á pallinn og síðan var ekið af stað.

El Salvador búar eru upp til hópa varkárir bílstjórar, a.m.k. miðað við Mexíkóbúa sem teljast vel yfir meðallagi klikkaðir, og bæjarstjórinn okkar var einn af þeim al varkárustu og skreið upp brekkurnar í fyrsta gír að ég held.
En sem betur fer er stutt upp í þorp, bara nokkra mínútu keyrsla og fljótlega vorum við komin til dýralæknisins, nema hvað það var engin dýralæknir á staðnum. Þetta var dýralæknabúð með ýmis lyf fyrir nautgripi og annan búfénað og hjálpsamir ungir menn að vinna og hundinum hélt áfram að blæða á gólfið þeirra.
Hann hringdi í dýralækninn sem sagði að hundurinn þyrfti að fá K vítamín til þess að stöðva blæðinguna sem voru svo sem engar nýjar fréttir fyrir mig. Gallinn var hins vegar sá að þar var ekki til vítamín K í búðinni og ekki heldur í apóteki bæjarins. Dýralæknirinn var staddur í 30 km fjarlægð í næsta stóra bæ og þar voru líka staddar næstu byrgðir af vítamíni K.
Hvernig áttum við að komast þangað? Taka strætó sem tæki klukkutíma með blæðandi hund? Reyna að ná í ís til þess að kæla nefið og draga þannig saman æðar og berjast við hundinn á meðan því það væri svo sannarlega ekki meðferð sem hún myndi sætta sig við þrátt fyrir ýtarlegar skýringar á nauðsynleikanum.

Karlmennirnir töluðu hratt saman á spönsku nema okkar maður sem talaði jafn hægt og venjulega en við skildum lítið hvað þeim fór á milli. Héldum reyndar að þeir væru að velta því fyrir sér hvernig að við kæmumst til San Martin þar sem dýralæknirinn var til húsa
Ég var alvarlega að hugsa um að ræna bílnum af bæjarstjóranum fyrrverandi þegar þeir komu loksins með þá tillögu að við skildum fara til mannana á torginu og athuga hvort þeir tæku það að sér að keyra okkur fyrir sanngjarnan pening.
Mennirnir sitja á horninu við aðalgötur bæjarins og spjalla saman. Veit ekki alveg hvers vegna, eru sjálfsagt að bíða eftir vinnu.
Bæjarstjórinn fyrrverandi ræddi við einn þeirra og hann bauðst til þess að keyra okkur fyrr 16 dollara. Við samþykkum strax, ekki alveg í stuði til þess að prútta.
Það runnu reyndar á mig tvær grímur þegar ég sá bílhræið hans en við höfðum lítið val. Kristján varð dálítið svektur yfir því að hafa ekki vitað af því að við værum á leiðinni til San Martín því þá hefði hann rifið vatnskassan úr Benza og tekið hann með til viðgerðar.

Nýji Bílstjórinn okkar var líka varkár bílstjóri og hundinum hélt áfram að blæða á pallinn hans en hún hafði samt orku til þess að sleikja á sér framlappirnar sem voru orðnar eldrauðar af blóð. Við vorum endalaust lengi á leiðinni að því mér fannst en komumst loks á leiðarenda þar sem dýralæknirinn beið eftir okkur.
Tara var orðin töluvert blóðlítil og hún fékk strax vökva í æð og vítamínið til þess að stöðva blæðinguna.

Blæðingin stöðvaðist fljótt sem betur fer og dýralæknirinn nefndi einhvern hættulegan snýkjudýra sjúkdóm þar sem einkennin eru m.a. blæðing frá nefi.
Hann ætlaði að taka sýni og senda til San Salvador. Okkur skildist að þetta væri meðhöndlanlegur sjúkdómur en hún þyrfti þá að vera á sýklalyfjum í mánuð.
Hann vildi hafa hundinn hjá sér í tvo sólarhringa til þess að fylgjast með henni og gefa sýklalyf í æð. Við urðum því að skilja hana eftir í litlu hundabúri og halda heim á leið frekar áhyggjufull en þetta var ungur dýralæknir sem virtist vita hvað hann var að gera og átti sjálfur gullfallegan boxer hund. Bílstjórinn hafði beðið þolinmóður í tvo tíma til þess að keyra okkur heim aftur.

Hann virtist á svipuðum aldri og bæjarstjórinn fyrrverandi og bíllinn ekki mikið yngri. Ákaflega vingjarnlegur maður með hlýtt viðmót. Hann sýndi mér stoltur litla húsið sitt við útjaðar Suchitoto þar sem hann bjó, ásamt eiginkonunni og nokkra mánaða syni þeirra, og sagði að þau væru ansi þreytt þessa dagana og svo skellihló hann hamingjusamur og stolltur af getunni. Ég hitti konuna hans og soninn nokkrum dögum síðar og hún virtist ekki mikið yngri en hann þannig að ég veit eiginlega ekki hvenær konur hætta að eignast börn hérna í El Salvador.
Ég hafði áhyggjur af hundinum í tvo daga en hafði ekki haft vit á því að fá símanúmerið hjá dýralækninum í öllu stressinu og þar að auki skil ég ekki stakt orð í spönsku ef að þau orð eru töluð í gegn um síma.

Tara sick

Hvernig er það á endalasut að skilja mann eftir bundin fyrir utan einhverja búð?

Að tveimur dögum liðnum tókum við strætó til San Matín til þess að sækja Töru. Strætóferðir hér í Mið Ameríku eiga svo sannarlega skilið eigin greinagerð og verður því ekki fjallað nánar um það að svo stödd.
Tara varð ákaflega ánægð að sjá okkur, svo ánægð að hún pissaði á gólfið.
Hún virtist hin hressasta og var ekki með þennan sjúkdóm sem læknirinn hafði talið sem betur fer. Hann hélt því að blæðingi hefði komið í kjölfar nefstíflunar og hnerrans. Hún átti því að vera á sýklalyfjum í viku í viðbót og fá vítamín með járni til þess að ná upp blóðinu.

Við ákváðum að vera í viku í viðbót í Suchitoto á meðan hún væri að klára lyfin og jafna sig, því ef að eitthvað kæmi upp á aftur þá væri þessi dýralæknir í nágrenninu sem þekkti hennar sögu og við treystum.
Sem betur fer kom ekkert meira upp á og vonandi er hennar veikinda sögu lokið í bili en það er svolítið erfitt að passa upp á hund sem þefar uppi allan andskotan sem hún skilgreinir sem ætilegan mat sem janvel grindhoraðir innlendir flækingshundar fúlsa við. Hún hefur því fengið allar bóluefnis sprautur sem til eru fyrir hunda og fær mánaðarlega orma og snýkjudýra töflur ásamt olíu á húð sem á að fæla burtu öll bítandi kvikindi.
Við kvöddum því bæinn Suchitoto með virktum enda búin að vera þar mun lengur en upphaflega var áætlað og ókum áleiðis til Honduras og verðum bara að vona að viðgerðin hans kristjáns á vatnskassanum haldi þangað til að við finnum logsuðu karla einhvers staðar þarna í Honduras.